Hleypt hefur verið af stokkunum rannsókn á heilsu, lífsstíl og starfsskilyrðum lækna á Íslandi. Allir læknar á Íslandi
með gilt lækningaleyfi þann 1. júlí síðastliðinn sem búsettir eru hér á landi hafa fengið sent boð um þátttöku.
Rannsóknarverkefninu er stýrt af fagfólki á sviði félagsvísinda og vinnuverndar og tekur mið af fyrri rannsóknum að höfðu
samráði við hóp íslenskra lækna frá mismunandi sérgreinum og vinnustöðum. Það er hluti af erlendu samstarfsverkefni
sem heitir the HOUPE study eða "Health and Organisation among University Hospital Physicians in four
European Countries: Sweden, Norway, Iceland and Italy.How do national framework, gender, hospital structure and
organisational culture impact on physicians" health?". Þar starfa Íslendingar með Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi,
St. Olav´s sjúkrahúsinu í Þrándheimi og Azienda Ospedaliera Universita í Padova, Ítalíu.
Íslenskir og norskir læknar ríða nú á vaðið með að leggja fyrir spurningalistann. Svíar og Ítalir munu fylgja fast á eftir.
Vefsvörun fer fram frá 22. nóvember til 20. desember 2004 - smellið hér Nánar um rannsóknina - pdf skjal Leiðbeiningar um svörun - pdf skjal |
Í undirbúningshóp verkefnisins hér á landi hafa setið læknarnir Kristinn Tómasson, Matthías Halldórsson,
Guðmundur Sigurðsson, Jóhanna Jónasdóttir, Vilhelmína Haraldsdóttir, Katrín Fjeldsted, Óskar Einarsson,
Haukur Hjaltason, Linn O. Getz, Ólöf Sigurðardóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Þau hafa öll átt beinan þátt í hönnun
og vali á áherslum í rannsókninni. Hér á landi munu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir Ph.D, lektor og Þorgerður Einarsdóttir Ph.D,
lektor, félagsfræðingar, leiðbeina mastersnemum og Vilhjálmur Rafnsson og Lilja S. Jónsdóttir verða leiðbeinandur í 3. árs
læknanemaverkefni sem unnið verður úr faraldsfræðilega hlutanum. Erlendu samstarfsaðilarnir verða allir með doktorsnema
við úrvinnslu á sínum rannsóknarsviðum.
Þátttakan í þessu erlenda samstarfi er afurð samstarfs Landlæknisembættisins, Læknafélags Íslands,
Landspítala - háskólasjúkrahúss, Félags kvenna í læknastétt á Íslandi, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum
og Rannsóknastofu í vinnuvernd við Háskóla Íslands. Innlendi verkefnisstjórinn er Lilja Sigrún Jónsdóttir læknir til húsa
hjá Landlæknisembættinu og er hún jafnframt ábyrgðarmaður verkefnisins hér á landi. Þorgerður Einarsdóttir Ph.D, lektor
stýrir rannsóknarhóp íslenska verkefnisins.
Í þessari rannsókn gefst mikilvægt tækifæri til að afla þekkingar á stöðu íslensku læknastéttarinnar í samanburði við erlenda
kollega og er það von þeirra sem að framkvæmd hennar standa að henni verði vel tekið.