Aðalfundur hjúkrunarráðs 15. nóv. 2002
Ávarp Önnu Stefánsdóttur hjúkrunarforstjóra
Ég óska nýkjörinni stjórn hjúkrunarráðs Landspítala - háskólasjúkrahúss allra heilla í starfi og vænti góðs af samstarfi við hana. Einnig óska ég nefndum farsældar í störfum sínum.
"Hjúkrun, eins og öll velferðarþjónusta, er orðin til vegna mannlegra þarfa", sagði Virginia Henderson árið 1960, Henderson var prófessor í hjúkrunarfræði við Yale háskólann í Bandríkjunum. Þó miklar breytingar hafi orðið á hjúkrunarstarfinu frá þeim tíma að Henderson setti fram kenningar sínar um grundvallarþætti hjúkrunar þá er kjarninn ætíð hinn sami, það er að veita skjólstæðingum þá hjálp sem þeir þarfnast hverju sinni óháð stað, tíma eða rúmi.
Til að standa undir þessu hlutverki þarf hjúkrunarfræðingurinn að þekkja, skilja og greina hinar mannlegu þarfir allt eftir hverjum einstaklingi og þeim aðstæðum sem hann stendur frammi fyrir hverju sinni. Það er ekki einfalt hlutverk en sérstaklega áhugavert og lærist á langri starfsævi með því að leita sífellt nýrrar þekkingar og leiða til úrlausna flókinna viðfangsefna.
Það er hjúkrunarfræðingum mikilvægt að geta mætt þörfum skjólstæðinga sinna sem best, geta gefið þeim nægan tíma og átt við þá árangursrík samskipti. Þetta reynist oft erfitt á annasömum bráðadeildum þessa sjúkrahúss en einnig standa hjúkrunarfræðingar daglega frammi fyrir þeim staðreyndum að sjúklingar eru útskrifaðir áður en þeir hafa lokið þeirri hjúkrunarmeðferð sem er þeim nauðsynleg til að ná færni á nýjan leik. Við þessu þarf að bregðast á viðeigandi hátt, t.d. með nýjum rekstrarformum í hjúkrun.
Einn er sá þáttur í starfsemi sjúkrahússins sem framkvæmdastjórn hefur sett á stefnuskrá sína að efla verulega; það er dag- og göngudeildarþjónusta, stundum kallað ferliverkastarfsemi. Markmiðin eru m.a. þau að mæta þörfum sjúklinga vegna styttingar legutíma, fækka innlögnum og að standa undir kröfum um kennslu-, vísinda- og þróunarstarf. Hér er mikið verk að vinna og mikilvægt er að hjúkrunarfræðingar nýti þau tækifæri sem þar bjóðast til að efla hjúkrun til muna, m.a. með því að þróa nýjar leiðir og meðferðarform í hjúkrun. Fyrirsjáanlegt er einnig að ný hlutverk bíða hjúkrunarfræðinga þar, m.a. í kennslu og rannsóknum sem enn er óplægður akur.
Ég hvet hjúkrunarráð til að virkja hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til þátttöku í uppbyggingu göngudeilda.
Í september sl. átti ég þess kost að heimsækja háskólasjúkrahúsið í IOWA í Bandaríkjunum. Sjúkrahúsið er álíka að stærð og okkar. Þar eru 250 göngudeildir, þar af 50 með umfangsmikla starfsemi. Hjúkrunarfræðingar gegna veigamiklu hlutverki í öllum þessum göngudeildum og í mörgum þeirra hafa þeir byggt upp öfluga hjúkrunarþjónustu.
Samkvæmt stjórnunarupplýsingum í september sl. voru hvorki meira né minna en 42 göngudeildir á LSH. Komur í þessar göngudeildir voru í kringum 200 þúsund á síðasta ári. Um það bil 130 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður vinna á göngudeildunum og veita þar mjög fjölbreytta hjúkrun og ljósmæðraþjónustu eins og ég mun koma að síðar. Ég held reyndar að göngudeildir séu vantaldar því hér er ekki talin göngudeild barna með svefnvandamál og ekki göngudeild í getnaðarvarnarráðgjöf fyrir ungt fólk.
Á sl. ári skipaði forstjóri LSH nefnd til að gera tillögur að uppbyggingu göngudeildarstarfsemi, eða ferliverka á sjúkrahúsinu. Nefndin skilaði forstjóra skýrslu í des. s.l. Í hugum margra eru ferliverk verk sem unnin eru á sjúkrahúsinu og læknar fá sérstaklega greitt fyrir, burtséð frá hvort þeir sinna þjónustunni eða ekki. Mikill styrr hefur staðið um þessi ferliverk undanfarin ár, bæði innan læknastéttarinnar og milli fagstétta. Mikils óréttlætis þykir gæta í þessum greiðslum þar sem einungis fáir læknar fá notið þeirra. Nú hefur forstjóri ákveðið að kalla nefndina til starfa á ný og hefur jafnframt fengið fleiri aðila til liðs við hana. Í nýju nefndinni eiga sæti 3 hjúkrunarfræðingar, auk mín nýkjörin formaður hjúkrunarráðs og deildarstjóri í almennri göngudeild við Hb. Við vitum að nú þegar gætir nokkurrar undiröldu á sjúkrahúsinu vegna setu hjúkrunarfræðinga í nefndinni og ég bið alla viðstadda að fylgjast vel með gangi mála á næstu vikum.
Í fyrrnefndri skýrslu nefndarinnar til forstjóra eru ferliverk skilgreind sem "öll meðferð sem sjúklingur fær á LSH og ekki krefst innlagnar, óháð því hvort sérstök greiðsla kemur fyrir verkið og hver annast það".
Í skýrslunni eru skilgreindar mismunandi tegundir göngudeilda. Ég ætla hér að nefna nokkrar;
Ø Göngudeildir vegna fjölgreinameðferðar eru göngudeildir þar sem margar fagstéttir vinna og veita þjónustu, ýmist hver fyrir sig eða saman. Þar má nefna göngudeildir vegna langvinnra meðferða, t.d. vegna krabbameins, geðfötlunar, verkja, sykursýki eða hjartabilunar.
Ø Göngudeildir vegna sérhæfðrar þjónustu. Má hér t.d. nefna svefnvandamál barna, ráðgjöf um getnaðarvarnir og sárameðferð. Á þessum deildum starfar jafnvel ein fagstétt en leitar ráðgjafar annarrar eftir eigin mati.
Ø Endurkomu göngudeild. Þar fá þeir þjónustu sem hafa áður fengið meðferð á legudeild en þurfa stuðning, eftirlit eða endurmat eftir útskrift. Einnig er í skýrslunni talað um;
Ø Göngudeildir til kennslu og vísindastarfa þar sem aðstaða er til kennslu nemenda, t.d. vegna auðveldari eða sjaldgæfra viðfangsefna sem sjaldan koma til greiningar eða meðferðar á sjúkrahúsinu. Hér er ekki síst verið að hugsa til þess að efla kennsluhlutverk sjúkrahússins.
Ég átti einnig sæti í fyrri nefndinni og í tengslum við störf mín þar ákvað ég að láta kanna notkun hjúkrunarmeðferða á göngudeildum LSH. Könnunin var unnin á vegum þróunarskrifstofu hjúkrunarforstjóra. Allir hjúkrunarfræðingar sem störfuðu á göngudeildum þegar könnunin fór fram fengu spurningalista. Könnunin náði ekki til göngudeilda á kvennasviði. 67 af 121 hjúkrunarfræðingi svaraði listanum. Spurt var um hve oft hjúkrunarfræðingarnir notuðu hverja og eina af 376 hjúkrunarmeðferðum/ meðferðarformum úr flokkunarkerfinu Nursing Intervention Classification (NIC).
Til marks um hve starf hjúkrunarfræðinga á göngudeildum er fjölbreytt, enda um ólík svið að ræða, sýna niðurstöður að af 376 mismunandi tegundum hjúkrunarmeðferða sem boðið var upp á í spurningalistanum segjast hjúkrunarfræðingar á göngudeildum LSH nota 251 meðferð nánast daglega eða oft á dag. 40% þátttakenda í könnuninni segjast nota fjórar tegundir hjúkrunarmeðferða nánast daglega eða oft á dag. Þessar hjúkrunarmeðferðir eru;
Ø virk hlustun 59% hjúkrunarfræðinga segjast veita þá meðferð nánast daglega eða oft á dag.
Ø nærvera 43% hjúkrunarfræðinga segjast veita þá meðferð nánast daglega eða oft á dag
Ø lyfjagjöf 43% hjúkrunarfræðinga segjast veita þá meðferð nánast daglega eða oft á dag
Ø símaráðgjöf 41% hjúkrunarfræðinga segjast veita þá meðferð nánast daglega eða oft á dag
Þessu til viðbótar eru 27 tilteknar hjúkrunarmeðferðir/meðferðarform framkvæmdar nánast daglega eða oft á dag af yfir 20% hjúkrunarfræðinga á göngudeildum.
Við grófa flokkun á niðurstöðunum má sjá hverja hjúkrunarfræðingar telja vera helstu starfþætti hjúkrunar á göngudeildum en þeir eru;
· lyfja- og vökvagjafir
· fræðsla og ráðleggingar
· meðferð er bætir andlega líðan og samskipti (virk hlustun, andlegur stuðningur, nærvera, snerting, kvíðastilling, o.fl.)
· ráðgjöf og forgangsflokkun
· eftirlit og túlkun rannsóknarniðurstaðna
· aðstoð við skoðun
· sárameðferð
· meðferð við ógleði
Þrátt fyrir að fáir einstaklingar liggi að baki hverju sérsviði í könnunni má engu að síður vel sjá sérhæfingu hvers sviðs endurspeglast í svöruninni. Niðurstöður þessarar könnunar eru mikilvægar og eiga eftir að nýtast hjúkrunarfræðingum til að byggja upp og efla hlutverk sitt í starfsemi göngudeilda. Niðurstöðurnar verða kynntar hjúkrunarfræðingum á göngudeildum í byrjun næsta árs.
Skráningu hjúkrunar er víða ábótavant í starfsemi göngudeilda. Afar mikilvægt er að bæta úr þeim veikleika. Skráning hjúkrunar er einn af mikilvægustu þáttunum í að gera starf hjúkrunarfræðinga sýnilegt og hjálpa okkur til að greina í hverju starfið er fólgið, sem og að færa okkur gögn um ástand og hjúkrunarmeðferð sjúklinga. Þau gögn eiga síðar eftir að nýtast við kennslu og rannsóknir og til að bæta þjónustu við sjúklinga. Ákveðið hefur verið að gera átak í skráningu hjúkrunar á sjúkrahúsinu og er það átak nú að fara af stað. Ennfremur hefur verið ákveðið að taka upp rafræna skráningu hjúkrunar og ljósmóðurþjónustu í göngudeildum og það ásamt þeim gögnum sem nú liggja fyrir úr áðurnefndri könnun ætti að auðvelda hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum framkvæmd skráningarinnar. Það auðveldar þeim jafnframt að skrá komur sjúklinga á sín nöfn þegar þeir veita meðferðina. Ég vænti þess að hjúkrunarráð verði bakhjarl við þetta mikilvæga verkefni.
Við uppbyggingu Landspítala sem háskólasjúkrahúss eru rannsóknir og kennsla ásamt þjónustu við sjúklinga skilgreind sem meginhlutverk spítalans. Hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum ber því að vinna að þessum þáttum til jafns við aðrar fagstéttir. Hlutverk göngudeilda í kennslu til nemenda sem og til rannsókna mun eflast mikið á næstu árum. Fram kemur í áðurnefndri könnun að gagnasöfnun í rannsóknir er eitt af algengum starfsþáttum hjúkrunarfræðinga á nokkrum göngudeildum. Ég veit að hér er oft um að ræða aðstoð við rannsóknir lækna, aðstoðar sem oftar en ekki er hvergi getið. Ég vona svo sannarlega að framvegis verði hjúkrunarrannsóknir í auknum mæli stundaðar á göngudeildum ásamt samstarfsrannsóknum með öðrum heilbrigðisstéttum og að afraksturs þeirrar vinnu sjái stað í nýjungum í hjúkrunarmeðferð sjúklinga á göngudeildum.
Samstarf það sem nú er að hefjast milli hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og Landspítala mun styrkja uppbyggingu göngudeildarstarfsins, efla kennsluhlutverk göngudeilda og styrkja rannsóknir í hjúkrun.
Sameining deilda og sérgreina hefur nú staðið í hartnær tvö ár. Hjúkrunarfræðingar hafa tekið virkan þátt í þeirri miklu vinna sem sameiningunni hefur fylgt, staðið vörð um hjúkrun og aðbúnað sjúklinga á aðdáunarverðan hátt, oft á tíðum við mjög erfiðar aðstæður. Nú er eftir lokahnykkurinn í sameiningarferlinu og framkvæmdastjórn stefnir að því að ljúka þeirri vinnu í stórum dráttum upp úr miðju næsta ári ef til þess fást fjárveitingar á fjárlögum. Þá er hægt að fara að horfa til frekari uppbyggingar í starfsemi og þróunar í þjónustu við sjúklinga. Ég hlakka til samstarfs við hjúkrunarráð í þeirri vinnu. Mikill áhugi er meðal stjórnenda í hjúkrun að byggja upp öfluga starfsþróun fyrir hjúkrunarfræðinga og hafa hugmyndir þar um verið ræddar okkar á meðal. Starfsþróunin byrjar með kjörári hjúkrunarfræðinga. Síðan þarf sérhæfingin að taka við en samstarf hefur verið við hjúkrunarfræðideild um námstilboð til hjúkrunarfræðinga á nokkrum sérsviðum hjúkrunar. Ennfremur höfum við rætt um að bjóða hjúkrunarfræðingum upp á svokallað fjölár. Grundavallarhugmyndin er að hjúkrunarfræðingar velji sér svið eða sjúklingahóp og öðlist færni í sem flestum þáttum þeirrar þjónustu sem þessi hópur þarf. Tilgangurinn er að breikka hópinn sem hefur innsýn í alla þá þjónustu sem sjúklingahópurinn þarf á að halda og með því móti auðvelda hjúkrunarfræðingum að taka ábyrgð á rekstri ákveðinna eininga. Ég hef áhuga á að eiga samstarf við hjúkrunarráð um frekari útfærslu á þessum hugmyndum.
Mér finnst ég oft ekki hafa tíma til að ræða við hjúkrunarfræðinga og ljósmæður um hvað eina sem á þeim hvílir varðandi starfið og sakna þess þáttar í mínu starfi. Þess vegna hef ég ákveðið að óska eftir því við deildarstjóra að mér verði boðið á deildarfundi á næsta ári. Ég óska öllum viðstöddum velfarnaðar.