Gerviliða- og bakflæðisaðgerðum fjölgað á LSH
Gerviliðaaðgerðum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi verður fjölgað um 50 af hundraði í ár og bakflæðisaðgerðum um 65 prósent borið saman við liðið ár, samkvæmt tilkynningu frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Jafnframt verður gerviliðaaðgerðum fjölgað verulega á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og á Heilbrigðisstofnuninni á Akranesi. Markmiðið er að stytta biðtíma eftir þessum aðgerðum. Þetta er niðurstaða samninga sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur gert við spítalana þrjá um að fjölga gerviliða- og bakflæðisaðgerðum verulega á árinu umfram það sem áætlað var. Heildarkostnaður við átakið er tæplega 85 milljónir króna, en auk þessa hefur verið veitt hálf fimmta milljón króna til að fjölga augnaðgerðum á augndeild Landspítala.
Í samningum heilbrigðisráðherra og spítalanna þriggja felst í fyrsta lagi að Landspítali - háskólasjúkrahús gerir 100 gerviliðaaðgerðir og 100 bakflæðisaðgerðir umfram það sem áætlað var að gera. Á árinu 2001 voru 263 gerviliðaaðgerðir á sjúkrahúsinu. Á árinu 2002 er ætlunin að láta þessar aðgerðir njóta forgangs í samræmi við átak heilbrigðisráðuneytisins og vilja LSH, gera um 400 slíkar aðgerðir á árinu og fjölga þeim þannig um rúmlega 50 af hundraði.
Á sama hátt verður bakflæðisaðgerðum fjölgað verulega á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Í fyrra voru 163 bakflæðisaðgerðir á sjúkrahúsinu, en í ár er ætlunin að gera um 270 slíkar aðgerðir í samræmi við átak heilbrigðisráðuneytisins og fjölga þeim þannig um 65%. Aukakostnaður vegna þessara 200 nýju aðgerða er tæplega 53 milljónir króna.
Í öðru lagi verður gerviliðaaðgerðum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri fjölgað um 60 á árinu og verður viðbótarkostnaðurinn um 21 milljón króna og í þriðja lagi verður hnjáaðgerðum á Heilbrigðisstofnuninni á Akranesi fjölgað um 20 til viðbótar því sem fyrirhugað var og er viðbótarkostnaðurinn um 9 milljónir króna.
Samkomulag heilbrigðisráðherra og spítalanna um aðgerðirnar er gert til að stytta biðtíma þeirra sem þurfa í aðgerð, segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins. Þessar tilteknu aðgerðir eru valdar í ljósi þess meðal annars að þær eru taldar hagkvæmar fyrir einstakling og samfélag. Liðskiptaaðgerðir eru þannig þær aðgerðir sem taldar eru borga sig hvað best og taka menn í mati sínu tillit til umtalsverðs lyfjakostnaðar, óþæginda einstaklinganna sem í hlut eiga og skertrar starfsgetu þeirra. Meðalaldur þeirra sem bíða eftir aðgerð á mjaðmar- og hnjálið er 68 ár.
Sama má að mörgu leyti segja um bakflæðisaðgerðir. Þeir sem bíða eftir bakflæðisaðgerðum eru hins vegar að jafnaði yngri en þeir sem þurfa í liðskiptaaðgerðir. Hægt er að gefa lyf til að halda niðri einkennum bakflæðis, en hagkvæmt talið að gera aðgerðir bæði vegna einstaklinganna og sömuleiðis vegna þess að lyfjakostnaður við meðferð er um 12 þúsund krónur á mánuði í heild og meðferðin til æviloka. Sá kostnaður fellur oftast niður við aðgerð.