Anna Stefánsdóttir hjúkrunarforstjóri
Landspítala - háskólasjúkrahúss
Erindi flutt í Ósló 15. maí 2002 á ráðstefnu LNN - Ledernes Nettverk i Norden
Fundarstjóri, ágætu kollegar og aðrir áheyrendur.
Ég þakka skipuleggjendum þessarar ráðstefnu fyrir að bjóða mér að tala hér. Formlegt samstarf háskóla og sjúkrahúsa er að mínu mati mikilvægt fyrir framtíð og þróun hjúkrunar. Mikið hefur verið talað og skrifað um gjána milli fræðanna og hjúkrunarstarfsins undanfarin ár og er enn og ennþá eigum við langt í land að brúa þá gjá. Ég tel að hvert skref sem við tökum í brúargerðinni sé til hagsbóta fyrir þróun hjúkrunar og stuðli að betri nýtingu á niðurstöðum rannsókna í hjúkrun. Margir hér þekkja samstarf læknadeilda háskóla og sjúkrahúsa en slíkt samstarf er vel þekkt á mörgum sjúkrahúsum á Norðurlöndum. Margar rannsóknir í læknisfræði eru unnar innan veggja sjúkrahúsa. Það sama á ekki við um hjúkrunarrannsóknir, en því fyrirkomulagi þarf að breyta.
Ég ætla í erindi mínu að gera grein fyrir meginatriðum í samstarfssamningi Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss sem undirritaður var í maí 2001. Nú er í vinnslu viðbótarsamningur um starfsmannamál, þ.e. verklagsreglur um starfsmenn sem hafa starfsskyldur innan beggja stofnana, svokallaðar tengdar stöður. Síðan mun ég gera grein fyrir hvernig samstarfi milli hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og Landspítala hefur verið háttað, hverjar breytingar ég sé verða á því samstarfi með tilkomu samstarfssamningsins og tækifæri því samfara í náinni framtíð til eflingar hjúkrunarfræðinnar.
Í byrjun árs 2000 var tekin ákvörðun um að sameina sjúkrahúsin í Reykjavík í eina stofnun Landspítala - háskólasjúkrahús. Um leið og hið nýja sjúkrahús var stofnað undirrituðu rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala svohljóðandi viljayfirlýsingu; "Vegna nýrra laga um Háskóla Íslands og stjórnskipulagsbreytinga sjúkrahúsanna í Reykjavík, hafa forstöðumenn þessara stofnana ákveðið að gera formlegt samkomulag er lýsir samstarfi stofnananna um kennslu og rannsóknir. Fyrsta skref til að styrkja kennslu og vísindastörf verður ráðning framkvæmdastjóra kennslu og fræða að sjúkrahúsinu. Hann verður ráðinn af ráðherra til 5 ára í senn að fenginni umsögn læknadeildar og stjórnarnefndar. Hann mun annast samskipti við Háskólann og vinna að uppbyggingu skrifstofu kennslu og fræða sem tengir saman Háskólann og spítalann". Með þessari viljayfirlýsingu var tekin tímamóta ákvörðun um samstarf Landspítala og Háskóla Íslands, en mikið starf var framundan við að semja um allt verklag tengt samstarfinu. Á árinu 2001 var svo undirritaður samstarfssamningur um uppbyggingu háskólasjúkrahússins, kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum. Samningurinn gildir til 5 ára. Samninginn undirrituðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, menntamálaráðherra, rektor Háskóla Íslands og forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss. Helstu atriði samningsins. · Samningurinn nær til yfirstjórna hvorrar stofnunar og samstarfshátta þeirra í milli. Fyrir stofnununum fara háskólaráð og stjórnarnefnd og starfa rektor Háskólans og forstjóri spítalans í þeirra umboði. Í samningnum er ekki gert ráð fyrir beinni samþættingu þessara stjórnsýslustiga. Samningurinn fjallar í aðalatriðum um næsta stjórnsýslustig, sem eru sviðsstjórar á sjúkrahúsinu og forstöðumenn fræðasviða eða fræðigreina heilbrigðisvísinda í Háskólanum.
· Sett er á stofn sameiginleg nefnd, stefnunefnd, sem mótar og fjallar um sameiginlega stefnu sjúkrahússins og Háskólans, sameiginlegar stöður og starfsmenn. Þrír fullrúar hvors aðila eiga sæti í nefndinni og eru rektor og forstjóri í forsæti. Nefndin á að tryggja að jafnræði ríki í umfjöllun sameiginlegra mála.
· Samningurinn er fyrsti hluti heildarsamnings um kennslu, rannsóknir og þjálfun í heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við Háskóla Íslands og stundaðar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Nú er verið að ljúka við viðbótarsamninga. Þar er samkomulag um skipan starfsmannamála veigamesti hlutinn. Sérstaklega er fjallað um starfsmenn með starfsskyldur bæði innan Landspítala og Háskólans, þá sem gegna tengdum stöðum eða samhliða stöðum. Einnig er samið um stöðu nemenda í heilbrigðisvísindagreinum og nám þeirra, um vísindastörf og rannsóknarverkefni.
· Með samningnum hefst með formlegum hætti vinna við skipulagningu sameiginlegra verkefna heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss. Sameiginleg verkefni eru í meginatriðum klínísk kennsla nemenda í heilbrigðisvísindagreinum, framhaldsmenntun heilbrigðisstarfsmanna, vísinda- og rannsóknarstarf og þróunarvinna hvers konar.
· Í samningnum eru skilgreind fræðasvið og fræðigreinar innan heibrigðisvísindadeilda. Fræðasvið er skilgreint sem skipulagsleg eining í stjórnun kennslu og rannsókna innan Landspítala og heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands. Fræðigrein er skilgreind sem fageining innan fræðasviðs. Í flestum tilfellum tengist hvert fræðasvið og fræðigrein klínísku sviði eða deild á sjúkrahúsinu. Klínísk svið á sjúkrahúsinu eru formlegar stjórnunareiningar þess. Sviðum er stjórnað af sviðsstjórum, hjúkrunarfræðingi og lækni sem hafa forstöðu um starfsemi þeirra. Nokkur styrr hefur staðið um forstöðu prófessora í læknadeild yfir sviðum á sjúkrahúsinu, en prófessorar í læknadeild vilja jafnframt gegna starfi sviðsstjóra og stýra öllu starfi sviða sjúkrahússins. Þannig var fyrirkomulagið meðan eldri lög um Háskóla Ísland voru í gildi og því löng hefð fyrir slíku skipulagi. Hvert fræðasvið heilbrigðisvísindagreina lýtur stjórn kennara við Háskólann og kallast hann forstöðumaður fræðasviðs. Forstöðumenn fræðasviða geta haft meginstarfsvettvang á Landspítala og í samningum er þannig viðurkennt forræði forstöðumanna fræðasviða og fræðigreina á skipulagi og þróun greinarinnar, ekki bara í Háskólanum heldur einnig á sjúkrahúsinu. Þeir hafa ótvíræðan rétt til að koma á framfæri sjónarmiðum sinna fræðigreina við uppbyggingu klínísks starfs á sjúkrahúsinu svo og við skipulagningu kennslu og vísindastarfa. Hjúkrunarfræðideildin hefur skipulagt sín fræðasvið og í sumum tilfellum fræðigreinar en sú vinna er skemmra komin. Hjúkrunarfræðideildin er ung deild innan háskólans, stofnuð árið 2001, en áður var hjúkrunarfræðin skor innan læknadeildar. Í samningnum er ákvæði um að Háskólinn geri formlegar akademískar hæfniskröfur til þeirra sem gegna störfum sviðsstjóra á sjúkrahúsinu. Þannig mun Háskólinn meta akademískt hæfi þeirra hjúkrunarfræðinga sem til greina koma í sviðsstjórastöður á sjúkrahúsinu í framtíðinni. Sviðsstjórar eru valdir af forstjóra, en honum til ráðgjafar um val sviðsstjóra verður þriggja manna nefnd. Sérstaklega er kveðið á um samstarf sviðsstjóra klínískra sviða á sjúkrahúsinu og forstöðumanna fræðasviða heilbrigðisvísindadeilda. Með þessum samstarfssamningi standa heilbrigðisvísindagreinar jöfnum fæti þegar litið er til uppbyggingar kennslu og rannsókna. Hér er því um tímamótasamning að ræða fyrir hjúkrun á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og tækifærin eru mörg sem nýta þarf hjúkrun og hjúkrunarfræðinni til framdráttar. Í raun má segja að hér sé stigið stórt skref í þá átt að hjúkrun verði skilgreind sem fræðigrein á sjúkrahúsinu en ekki einungis starfsgrein. Mikið starf er nú framundan að byggja upp og skipuleggja hið formlega samstarf milli hjúkrunarfræðideildarinnar og sjúkrahússins.
Þó ekki hafi verið um að ræða formleg starfstengsl milli hjúkrunarfræðideildar og Landspítala hefur verið talsvert samstarf um árabil sem hefur verið í stöðugri þróun undanfarin ár.
Dósentar og lektorar við hjúkrunarfræðideildina hafa, samhliða kennslu og fræðastarfi í háskólanum, verið í hlutastöðu við Landspítala. Þeir hafa m.a. unnið klíníska vinnu, þróunar- og vísindavinnu og verið leiðbeinendur við rannsóknir hjúkrunarfræðinga sjúkrahússins. Þessi starfstengsl efldu hjúkrunarstarfið og stuðluðu að og studdu við rannsóknir hjúkrunarfræðinga. Einnig hafa stjórnendur í hjúkrun og klínískir sérfræðingar í hjúkrun á Landspítala gegnt lektorsstöðum um lengri tíma. Hér er ekki um svokallaðar tengdar stöður að ræða heldur eru starfsmenn með ráðningarsamning við tvær stofnanir. Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika tengdu þessu fyrirkomulagi hefur talsverður árangur náðst í rannsóknum og þróunarvinnu og gagnkvæmur skilningur myndast á viðfangsefnum hvorrar stofnunar. Langar mig að nefna hér nokkur dæmi.
1. Meðferð til reykleysis.
Meðferðin er byggð á niðurstöðum úr hjúkrunarrannsókn sem var samvinnuverkefni hjúkrunarfræðinga á lungnadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss og kennara við hjúkrunarfræðideildina. Meðferðin var fyrst eingöngu fyrir sjúklinga með sjúkdóma í lungum og fyrir stórreykingafólk, en nú er farið að bjóða meðferðina sjúklingum með hjartasjúkdóma og konum í meðgöngu. Meðferðin byggist á ráðgjöf, fræðslufundum og stuðningsfundum. Læknar taka þátt í fræðslunni en hjúkrunarfræðingar sjá um ráðgjöfina og að viðhalda meðferðinni. Nú hafa hjúkrunarfræðingar lungnadeildar og fleiri áhugasamir hjúkrunarfræðingar í samstarfi við hjúkrunarfræðideildina samið efni fyrir hjúkrunarfræðinga til að nota við meðferð til reykleysis. Eitt af því sem komið hefur fram í þessari vinnu allri er mikilvægi þess að í umræðum um reykingar við reykingamenn sé rétt haldið á málum og spurt sé ákveðinna spurninga, eigi að nást árangur við að breyta viðhorfum reykingamannsins.
2. Getnaðarvarnarráðgjöf við ungar konur sem fara í fóstureyðingu.
Háskólakennari sem starfað hefur í hlutastarfi frá 1997 við göngudeild kvennadeildar hefur þróað getnaðarvarnarráðgjöf fyrir ungar konur sem koma í fóstureyðingu og fyrir stúlkur yngri en 20 ára. Hún hefur móttöku tvisvar í viku. Til hennar vísa m.a. skólahjúkrunarfræðingar og læknar. Markmiðið með meðferðinni er að varna ótímabærum þungunum hjá stúlkum yngri en 20 ára og hjá þeim sem komið hafa í fyrstu fóstureyðingu. Kynni hennar af þessum konum varð kveikjan að doktorsnámi sem nú er langt komið.
3. Hjúkrunarmeðferð fyrir börn með svefnvandamál.
Hjúkrunarfræðingur hefur þróað og rannsakað, í samvinnu við háskólakennara, hjúkrunarmeðferðir fyrir börn sem eru óvær og sofa lítið á fyrsta og öðru ári. Að mati hjúkrunarfræðingsins er fræðsla til foreldra mikilvægasta hjúkrunarmeðferðin. Þar er m.a. fjallað um svefn barna og áhrif svefnvandamála á fjölskylduna, um tengsl svefnvandamála við næringu barna og um tengsl lundarfars barna og þroska við hvaða meðferð og umönnun veitt er. Hjúkrunarfræðingurinn hefur nú lokið meistaranámi þar sem hjúkrunarmeðferðir voru þróaðar og rekur göngudeild á Landspítala -háskólasjúkrahúsi. Í göngudeildarmeðferðinni er m.a lögð áhersla á að styðja við sjálfshuggunarhæfni barns, að gera feður virka í umönnun barna sinna, að veita fjölskyldumiðaða þjónustu og að fylgja fjölskyldum eftir.
4. Rafræn skráning hjúkrunar.
Mótuð hefur verið heildarstefna í skráningu hjúkrunar og ákveðið er að styðjast við NANDA, NIC og NOC. Er það samkvæmt tilmælum Landlæknisembættisins. Hópur hjúkrunarfræðinga sem starfa við Landspítala vinnur nú við að þýða NIC. Hjúkrunarfræðideildin og Landspítali eru í samstarfi við Háskólann í Iowa í USA um þróun í skráningu hjúkrunar. Þetta samstarf hefur verið mikil lyftistöng fyrir skráningu hjúkrunar á sjúkrahúsinu. Einnig hefur hjúkrunarkennari í hlutastarfi við Landspítala unnið með hjúkrunarforstjóra, tölvudeild og tölvufyrirtæki í einkaeign að því að innleiða rafræna skráningu hjúkrunar. Verkefnið er ennþá ungt og talsverð þróunarvinna eftir, en hjúkrun er nú skráð rafrænt á fjórum deildum sjúkrahússins.
5. Klínísk kennsla.
Unnið er að því að auka gæði og árangur klínísks náms hjúkrunarfræðinema. Myndaðir hafa verið þrír vinnuhópar sem í sitja bæði kennarar hjúkrunarfræðideildar og hjúkrunarfræðingar frá sjúkrahúsinu. Þessi vinna hefur þegar borið þann árangur að gefnar hafa verið út handbækur fyrir kennara á deildum sjúkrahússins.
6. Viðbótarnám (diploma) fyrir hjúkrunarfræðinga
Á undanförnum árum hefur Háskólinn verið með viðbótarnám fyrir hjúkrunarfræðinga og er það samstarfsverkefni hjúkrunarfræðideildar og Landspítala. Hjúkrunarfræðingar hafa tekið þátt í námskrárgerð fyrir þetta nám, stundum hafa þeir stýrt námi og alltaf hafa margir hjúkrunarfræðingar kennt í náminu. Hér má nefna nám eins og svæfingarhjúkrun, skurðhjúkrun og geðhjúkrun.
Árið 1997 var gerður samstarfssamningur milli Landspítala - háskólasjúkrahúss og Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði innan Háskóla Íslands. Samningurinn var gerður í kjölfar ákvörðunar Landspítala um að kosta stöðu sérfræðings við rannsóknarstofnunina. Sérfræðingurinn við Rannsóknarstofnun er hjúkrunarfræðingur á seinni hluta doktorsnáms í hjúkrunarfræði og hefur jafnframt talsverða reynslu við rannsóknarstörf.
Tilgangurinn með þessum samstarfssamningi er;
* að stuðla að framgangi klínískra rannsókna í hjúkrun
* að auka þekkingu í hjúkrun og styrkja þróun hennar í landinu
* að stofnanirnar samnýti aðstöðu og færni hvor hjá annarri.
Þetta samstarf hefur þegar skilað talsverðum árangri. Sérfræðingur í rannsóknarstofnun hefur m.a. haldið námskeið fyrir hjúkrunarfræðinga á Landspítala í megindlegum rannsóknaraðferðum. Þátttakendur á námskeiðinu unnu rannsóknaráætlun og hjá mörgum varð það hvati til að hefja meistaranám í hjúkrun. Hann hefur ennfremur veitt hjúkrunarfræðingum á Landspítala ráðgjöf við kannanir og gerð rannsóknaráætlana.
Mikið verk er fyrir höndum að semja um og skipuleggja starfstengsl hjúkrunar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands.
Talsvert hefur verið skrifað um mikilvægi slíkra tengsla fyrir þróun hjúkrunar sem fræðigreinar á sjúkrahúsum, einnig að nauðsynlegt sé að koma þessum tengdu stöðum á svo niðurstöður rannsókna í hjúkrun nýtist í þágu sjúklinga. Samkvæmt heimildum, sem eru aðallega frá USA, hafa hjúkrunarfræðideildir farið ýmsar leiðir í hinu formlega samstarfi við háskólasjúkrahús. Einhverjir hér þekkja kannski til þar sem prófessor í hjúkrunarfræðier bæði forseti hjúkrunarfræðideildar og hjúkrunarforstjóri háskólasjúkrahússins. Annars staðar ver háskólakennarinn hluta af starfi sínu á háskólasjúkrahúsinu við hjúkrun, kennslu og rannsóknir.
Í nýlegri grein eftir Berger o.fl. um tengdar stöður hjúkrunarfræðideilda og háskólasjúkrahúsa, sem birtist í tímaritinu Clinical Nurse Specialist árið 1999, kemur m.a. fram að slíkar stöður séu aðallega stöður klínískra sérfræðinga í hjúkrun, stöður fyrir hjúkrunarfræðinga í klínískum rannsóknum, jafnvel í doktorsnámi. Berger o.fl. skýrir meginhlutverk hvorrar stöðu í grein sinni. Klínískir sérfræðingar í hjúkrun veita sérhæfða hjúkrunarmeðferð, innleiða nýjungar í hjúkrun, meta niðurstöður rannsókna í hjúkrun með tilliti til notagildis, stunda rannsóknir og veita hjúkrunarfræðingum ráðgjöf um sérhæfða hjúkrunarmeðferð. Hjúkrunarfræðingar í rannsóknarstöðum, sem oft eru kennarar við hjúkrunarfræðideildina, stýra klínískumrannsóknum, meta árangur hjúkrunarmeðferða, kenna rannsóknaraðferðir og sinna eigin rannsóknum.
Í annarri nýlegri grein eftir Beitz o.fl. frá árinu 2000, er tekið undir þessar skilgreiningar, en einnig lögð áhersla á kennsluhlutverk þeirra sem eru í tengdum stöðum. Þar er því haldið fram að rannsóknir hafi sýnt að klínísk kennsla batni þegar hjúkrunarkennarar taka upp tengdar stöður. Beitz o.fl. skilgreina einnig í sinni grein hlutverk háskólakennarans sem stjórnanda á háskólasjúkrahúsinu. Þau segja það vera t.d. stjórnun deilda, þá sér í lagi dag- og göngudeilda og þverfaglegra teyma. Þeir eru einnig til ráðgjafar við endurmenntun, stefnumótun og endurskipulagningu á starfsemi innan sjúkrahússins.
Í rannsókn sem gerð var meðal 8 prófessora í klínískri hjúkrunarfræði í Ástralíu árið 1999 kom fram að mikilvægasta hlutverk háskólakennara í tengdum stöðum væri að brúa bilið milli klínískrar hjúkrunar og fræðigreinarinnar, brúa bilið milli hjúkrunarfræðideilda og sjúkrahúsa og að ná fram sameiginlegum markmiðum innan hjúkrunarsamfélagsins um hjúkrun sem fræðigrein og sameiginlega sýn á hjúkrun sem "profession". Rannsóknin var gerð af Dunn og Yates og niðurstöður birtar í Journal of Advanced Nursing árið 2000.
Viðræður eru þegar hafnar milli hjúkrunarforstjóra og deildarforseta um skipulag hins formlega samstarf hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss. Ég tel að við munum til að byrja með leggja áherslu á tengdar stöður háskólakennara og stöður klínískra sérfræðinga í hjúkrun.
Eins og ég gat um áður hefur hjúkrunarfræðideildin skilgreint fræðasvið hjúkrunar og að nokkru leyti fræðigreinar hjúkrunar. Deildin mun innan tíðar tilnefna forstöðumenn fræðasviða sem í öllum tilfellum eru háskólakennarar. Forstöðumenn fræðasviða verða tengdir sviðum sjúkrahússins.
Ég hef lagt til við deildarforseta hjúkrunarfræðideildar að við sviðin verði stofnuð fagteymi sem prófessor eða dósent, sem er forstöðumaður fræðigreinar í hjúkrun, veiti forstöðu. Í fagteyminu sitji, auk forstöðumanns fræðigreinar, klínískir sérfræðingar í hjúkrun á sviðinu. Fagteymið starfar í nánu samstarfi við sviðsstjóra hjúkrunar á hinu klíníska sviði eða að sviðsstjóri eigi sæti í fagteyminu.
Hlutverk fagteymis getur verið að stýra rannsóknum og þróun í hjúkrun, stuðla að rannsóknum og nýtingu rannsóknarniðurstaðna, stuðla að því að hjúkrun byggi á gagnreyndum niðurstöðum og að aðstoða hjúkrunarfræðinga á sviðinu við að innleiða nýjungar í hjúkrun. Má þar nefna nýjar hjúkrunarmeðferðir, ný þjónustuform í hjúkrun, gerð klínískra leiðbeininga og að meta árangur hjúkrunarmeðferða svo eitthvað sé nefnt.
Innan tíðar verður stofnað stöðuheitið klínískur sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þegar liggur fyrir skilgreining á störfum þeirra og meginhlutverki, en það verður að samþætta kennslu, rannsóknir og hjúkrun. Í starfslýsingu segir um hlutverk í hjúkrun; klínískur sérfræðingur í hjúkrun ber ábyrgð á að skjólstæðingurinn njóti bestu mögulegrar hjúkrunar, stuðlar að auknum gæðum hjúkrunarþjónustunnar og er frumkvöðull og leiðtogi í hjúkrun. Til að geta sótt um þessar stöður þarf hjúkrunarfræðingur að hafa hið minnsta meistaranám í hjúkrun og tveggja ára starfsreynslu á sérsviði. Hafi klínískur sérfræðingur í hjúkrun akademíska hæfni getur hann einnig tekið að sér starfsskyldur við hjúkrunarfræðideildina.
Deildarforseti hefur rætt við mig um áhuga kennara hjúkrunarfræðideildar á þátttöku í starfi á göngudeild og að settar verði á fót fleiri göngudeildir með hlutdeild hjúkrunarfræðinga þannig að hugmyndafræði hjúkrunar skipi þar stóran sess. Kennarar hjúkrunarfræðideildar myndu þá vinna við hjúkrun á göngudeildunum og einnig veita öðrum hjúkrunarfræðingum sem þar starfa ráðgjöf um hjúkrunarmeðferðir. Á slíkum göngudeildum mætti meta árangur hjúkrunarmeðferða og þróa nýjar og nýjar leiðir til að ná til sjúklinga með langvinna sjúkdóma. Starfsemi sem þessi hefur alla möguleika til að bæta þjónustu við skjólstæðinga sjúkrahússins. Einnig væru slíkar göngudeildar áhugaverðar kennslugöngudeildir fyrir nemendur í hjúkrunarnámi, fyrir nemendur í meistara- og doktorsnámi svo og til starfsþróununar fyrir hjúkrunarfræðinga. Ég sé t.d. fyrir mér að fljótlega verði sett á fót göngudeild fyrir meðferð til reykleysis og göngudeild fyrir langveik börn, en mikil sérfræðiþekking er innan hjúkrunarfræðideildar á hjúkrun langveikra barna, svo og göngudeild fyrir hjartabilaða. Rannsóknir hafa sýnt að göngudeildir sem hjúkrunarfræðingar reka eru hagkvæmar í rekstri.
Við stöndum frammi fyrir miklum breytingum í íslensku heilbrigðiskerfi með sameiningu sjúkrahúsa og sífellt auknum kröfum um hagkvæmni í rekstri og það sama á við víða á Norðurlöndum. Þessar breytingar bjóða upp á mörg tækifæri fyrir hjúkrun ef vel er á haldið. Því er mjög miklivægt fyrir hjúkrun að taka þátt í þessum breytingum, en á sama tíma standa vörð um megináherslur hjúkrunarstarfsins, hin mannlegu gildi þess og hina miklu nálægð sem hjúkrunarfræðingurinn hefur við skjólstæðing sinn.
Hjúkrun vill oft verða of verkhæfð, sérstaklega þegar erfiðleikar steðjar að eins og á tímum mikilla breytinga og þegar skortur verður á hjúkrunarfræðingum til að starfa á sjúkrahúsunum. Þetta skapar vanlíðan hjá hjúkrunarfræðingum og getur stuðlað að auknu brottfalli úr starfi. Þessu þurfum við að breyta. Því tel ég mikilvægt að hjúkrunarfræðingar sameini krafta sína, það er þeir sem vinna við kennslu og fræðistörf og þeir sem starfa við klíníska hjúkrun. Við þurfum að skapa hjúkrunarfræðingum sem starfa á sjúkrahúsinu möguleika á að stíga aðeins til hliðar frá hinu krefjandi klíníska starfi og gefa þeim tækifæri til þátttöku í að þróa nýjar aðferðir í hjúkrun og skoða árangur af framlagi sínu til umönnunar. Við þurfum að sýna með rannsóknum hvað hjúkrun er, hvaða meðferðir hjúkrunarfræðingar veita og hvers vegna þær skipta máli fyrir sjúklinginn, vellíðan hans og bata. Við þurfum að ná saman fræðilegri þekkingu og reynsluþekkingu til að efla framþróun í hjúkrun, til að mæta sífellt vandasamari umönnun veikari sjúklinga og til að bæta gæði hjúkrunarstarfsins.
Með nánu samstarfi háskólakennara og hjúkrunarfræðinga á deildum tekur hjúkrunarnámið meira mið af veruleika starfsins og jafnframt aukast möguleikar til að tengja rannsóknir og klínískt starf.
Við sjáum því mikla möguleika með formlegu samstarfi hjúkrunarfræðideilda Háskóla Íslands og Landspítala til eflingar hjúkrunar og eflingar náms í hjúkrunarfræði á Íslandi.