Landspítali - háskólasjúkrahús
Skrifstofa forstjóra
28. júní 2001
Tæpar 80 milljónir
til hjartalækninga, rannsókna á hjartasjúkdómum
og bættrar þjónustu við hjartasjúklinga
til hjartalækninga, rannsókna á hjartasjúkdómum
og bættrar þjónustu við hjartasjúklinga
Stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur hefur ákveðið að úthluta 77 milljónum króna til kaupa á tækjabúnaði vegna hjartalækninga á Landspítala – háskólasjúkrahúsi, til stuðnings annarri þjónustu við hjartasjúklinga og eflingar rannsókna á hjartasjúkdómum.
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var stofnaður í júlí 2000. Stofnfé var 200 milljóna króna framlag hennar en meginhlutverk sjóðsins er að efla hjartalækningar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.
Jónína S. Gísladóttir er 79 ára að aldri, ekkja Pálma Jónssonar í Hagkaupi. Með ómetanlegu framlagi sínu til hjartalækninga á Íslandi vill hún leggja sitt af mörkum til að efla þær og styrkja og vinna að velferð hjartasjúklinga.
Í stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur eru synir hennar, Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, Helgi V. Jónsson hrl. og löggiltur endurskoðandi, Magnús Pétursson forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss og Guðmundur Þorgeirsson sérfræðingur í hjartalækningum, skipaður í samráði við framkvæmdastjórn spítalans.
Hjartaþræðingartæki – 40 milljónir
Sjóðurinn gerði kleift að ákveða strax sumarið 2000 að ráðast í kaup á nýju hjartaþræðingartæki, sem verður komið fyrir á Landspítala Hringbraut. Það verður tekið í notkun í ágúst næstkomandi. Sjóðurinn styrkir kaupin með 40 milljóna króna framlagi.
Nú hefur stjórn Gjafa og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur ákveðið að stíga næstu skref til að efla hjartalækningar, rannsóknir vegna hjartasjúkdóma og þjónustu við hjartasjúklinga:
Hjartabilunardeild JSG – 25 milljónir
Framlaginu verður varið til að koma á fót göngudeild fyrir hjartabilaða. Því er ætlað að standa undir húsnæði og öðru nauðsynlegu til þess að stofna deildina. Verkefninu er ætlað að standa yfir í tvö ár en þá verði árangur metinn.
Hjartabilun er lokastig ýmissa hjartasjúkdóma. Þá dælir hjartað ekki því blóði sem að því berst, í fyrstu við litla áreynslu en síðar í hvíld. Á hjartabilunargöngudeild fá sjúklingarnir markvisst eftirlit læknis með stuttu millibili. Metið er með skoðun hvernig ástand hjarta og lunga er, hvort eigi að breyta lyfjameðferðinni eða hvort þurfi lyf í æð sem er aðal meðferðin þegar sjúklingar eru lagðir inn á sjúkrahús. Meðal verkefna göngudeildar gæti orðið að skipuleggja vitjanir heim til þeirra veikustu með reglulegu millibili til að fylgjast með þeim. Einnig má gera ráð fyrir rannsóknarstarfsemi í tengslum við slíka göngudeild, kennslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk og að frá henni verði endurhæfing skipulögð fyrir viðskiptavinina.
Rannsóknarstofa í hjarta- og æðasjúkdómum - 10 milljónir
Ætlunin er að nýta féð til þess að koma upp hjartarannsóknarmiðstöð LSH til grunnrannsókna í hjarta- og æðasjúkdómum. Fáist stuðningur annarra aðila styrkir sjóðurinn starfið með framlagi sínu. Þannig er framlagið hugsað til hvatningar fyrir stjórnendur spítalans og þess að haldið verði uppi samstarfi við innlenda og erlenda aðila.
ST-monitor - 2 milljónir
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur styrkir kaup á ST-monitor fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús. Tækið er síriti sem skráir reglulegar og óreglulegar hjartsláttartruflanir. Eitt slíkt tæki er til á landinu og er það á Akureyri.