Í netútgáfu hins virta tímarits Nature Genetics birtist í gær, 7. maí 2006, grein um erfðabreytileika á litningi 8 sem fannst fyrst í íslenskum fjölskyldum og tengist aukinni tíðni blöðruhálskirtilskrabbameins. Rannsóknin var samstarfsverkefni vísindamanna á rannsóknarstofu í meinafræði á LSH, þvagfæraskurðlækningadeildar LSH og Íslenskrar erfðagreiningar, einnig komu að henni vísindamenn við Karólínska stofnunina í Svíþjóð, Northwestern University Feinberg School of Medicine Chicago og University of Michigan.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar finnst breytileikinn í 19% sjúklinga af evrópskum uppruna og getur haft áhrif til myndunar krabbameins í um 8% tilfella. Hærri tíðni fannst í sjúklingum af afrískum uppruna búsettum í Bandaríkjunum og gæti að hluta til skýrt aukna tíðni blöðruhálskirtilskrabbameins í þeim hópi sjúklinga.