Leit
Loka

 

Spurt og svarað um inflúensu

hausinn-a-influensubanner2my.png (395081 bytes)
Inflúensa er smitandi öndunarfærasjúkdómur sem inflúensuveirur valda. Inflúensan lýsir sér með öndunarfæraeinkennum, hita og beinverkjum. Inflúensuveirurnar eru af 2 meginflokkum, A og B með mörgum undirflokkum af A. Inflúensuveirur eru óvenjulegar vegna þess hve mikið þær breytast á milli ára (mótefnavakarek) og því geta upp í þrír alveg nýir mismunandi inflúensufaraldrar gengið á hverju ári. Þannig má segja að ný inflúensa gangi á hverju ári og það að hafa sýkst af henni, eða verið bólusettur áður, verndar ekki alveg gegn nýsýkingum næsta árs. Einstaka sinnum koma svo fram svokallaðir uppstokkaðir stofnar eða heimsfaraldursstofnar sem ekkert ónæmi er fyrir í samfélagin og valda því mjög skæðum og alvarlegum heimsfaröldrum eins og t.d. svínaflensan gerði árið 2009.
Inflúensa smitast með því að veirur berast milli einstaklinga með svokölluðu snerti- og dropasmiti. Það gerist helst þannig að slím/dropar sem innhalda veirur úr öndunarfærum berst með hósta/hnerra eða með snertingu frá veikum einstaklingi í aðra sem geta þá sýkst. Handhreinsun og réttur hlífðarbúnaður þegar við á, er því mikilvægur þáttur í að verjast inflúensu og hindra dreifingu hennar milli einstaklinga.

Inflúensa er alvarlegur sjúkdómur, sérstaklega hjá þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Hún getur auðveldlega borist á milli einastaklinga og smitað mjög marga á stuttum tíma eins og við sjáum á hverjum vetri. Sjúklingar sem eru með hjarta eða lungnasjúkdóma eða aðra alvarlega undirliggjandi sjúkdóma eru í meiri hættu á að fá alvarlegar sýkinga vegna inflúensunnar og bakteríulungnabólgu í kjölfarið. Almennt eykst dánartíðni töluvert meðan og fyrst á eftir að inflúensufaraldrar ganga yfir. Áætlað er að milli 12 000 og 56 000 auka dauðsföll verði vegna inflúensu á hverju ári í Bandaríkjunum.

Það er mun meiri smithætta á sjúkrahúsum en annars staðar. Bæði er þar fólk samankomið sem er veikt af inflúensu og aðrir sem eru mjög næmir og viðkvæmir fyrir því að sýkjast af inflúensu. Þá er starfsfólk að sinna sjúklingum sem geta verið smitandi og getur borið smit á milli sjúklinga. Eins geta hraustir heilbrigðisstarfsmenn sýkst án mikilla einkenna og smitað skjólstæðinga sína.
Við bólusetningu minnka líkur á að þú getir smitast og smitað aðra af inflúensu. Í bóluefninu eru fjórir stofnar inflúensuveirunnar, sem líklegastir eru til að ganga þann vetur.
Rannsóknir sýna að með því að bólusetja starfsfólk á sjúkrahúsum minnka líkur á að það fái sjálft inflúensu, að það beri smit í sjúklinga sem þeir sinna og eins minnka líkur á að þeir geti smitað sína nánustu.
Þar sem ný inflúensuveira kemur á hverju ári er þörf á nýju inflúensubóluefni árlega. Virkni bóluefnisins er mismunandi milli ára- oftast á bilinu 40-60%. (https://www.cdc.gov/flu-vaccines-work/effectiveness/index.html). Einstaklingar sem eru bólusettir geta því mögulega smitast af inflúensu en talið er að þeir sem eru bólusettir verði minna veikir og nái sér fyrr ef þeir smitast miðað við þá sem eru óbólusettir.
Inflúensusmit getur verið nær einkennalaust en viðkomandi er engu að síður smitandi. Eins geta einstaklingar verið smitandi í 1-2 daga áður en þeir fá einkenni.
Þar sem inflúensan breytist á hverju ári þarf að bólusetja sig árlega þó að einstaklingar hafi smitast eða verið bólusettir áður. Næsti faraldur orsakast af nýju afbrigði inflúensuveirunnar.
Ábendingar fyrir bólusetningu eru: Allir einstaklingar 60 ára og eldri. Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum. Heilbrigðisstarfsmenn og þungaðar konur. (https://island.is/s/landlaeknir/frett/bolusetning-gegn-arlegri-influensu-veturinn-2023-2024
Mjög sjaldgæft er að ofnæmi myndist gegn bóluefninu. Þeir sem eru með mjög alvarlegt eggjaofnæmi ættu ekki að láta bólusetja sig án samráðs við sinn lækni.
Algengustu aukaverkanir af bóluefninu eru staðbundin mild óþægindi á stungustað, sem um 65% fá. Einstaka fá hita og beinverki en rannsóknir hafa sýnt að tíðni þess er svipuð og hjá þeim sem fengu saltvatnssprautu (placebo). Alvarlegar aukaverkanir eru mjög sjaldgæfar og ekki má gleyma að margar þeirra sjást líka eftir inflúensusýkingar. https://www.cdc.gov/flu/professionals/vaccination/vaccine_safety.htm
Þar sem upp í þrjár nýjar inflúensuveirur ( A (H1 stofn, H3 stofn) og B stofn) geta komið á hverju ári er þörf á fjórum nýjum inflúensubóluefnisstofnum í sömu sprautu á hverju ári. Virkni bóluefnisins er misjöfn milli ára, oftast á bilinu 40-60% þó vissulega geti það verið lakari eða mun betra, allt eftir hve vel bóluefnið passar við stofnana sem ganga það árið. Margar rannsóknir hafa skoðað bólusetningar starfsfólks heilbrigðisstofnana og tíðni veikinda og dánartíðni skjólstæðinga, sýna verulegan ávinning af bólusetningu starfsmanna með lægri dánartíðni.
Eftir bólusetningu má búast við að það taki 10-14 daga að fá fulla vörn gegn inflúensunni. Lengd ónæmis eftir bólusetningu er mismunandi, en yfirleitt 6-12 mánuðir.
Hægt er að nota veirulyf (Oseltamivir-TamifluÒ eða Zanamivir - RelenzaÒ) ef einstaklingar veikjast af inflúensu. Ef meðferð hefst nægilega snemma í ferlinu styttir það veikindatíma og getur dregið úr alvarleika sýkingarinnar. Eins er hægt að nota lyfin í varnandi tilgangi, til dæmis hjá útsettum einstaklingum og eins í faröldrum á stofnunum meðan beðið er eftir að bóluefnið fari að verka hjá nýbólusettum.
Hvoru tveggja eru veirusýkingar en mjög mismunandi þar sem kvef er mun vægari sýking en inflúensa. Einkenni Inflúensu koma oftast skyndilega með miklum almennum slappleika, hita, beinverkjum, hálssærindum og höfuðverk. Kvefpest læðist að og er bundin við efri öndunarvegi.
Því fyrr sem bólusett er því meiri líkur eru á að viðkomandi hafi náð að mynda mótefni gegn inflúensuveirunni áður en hann verður útsettur og því minni líkur á að hann smitist. Þó er hægt að bólusetja langt inn í faraldurinn.
Sérstaklega er mælt með því að ófrískar konur láti bólusetja sig til að minnka líkur á að þær verði alvarlega veikar á meðgöngu (sumir stofnar hafa verið sérstaklega erfiðir fyrir ófrískar konur) og eins til að hindra að barnið geti smitast fyrst eftir fæðingu.. https://island.is/s/landlaeknir/frett/bolusetning-gegn-arlegri-influensu-veturinn-2023-2024

Já, það er sérstaklega er mælt með því að ófrískar konur láti bólusetja sig til að minnka líkur á að þær verði alvarlega veikar á meðgöngu (sumir stofnar hafa verið sérstaklega erfiðir fyrir ófrískar konur) og eins til að hindra að barnið geti smitast fyrst eftir fæðingu.

Það er mismunandi milli ára og faraldra en það má búast við að milli 10 og 50% af þjóðarinnar geti sýkst. Inflúensa veldur því mjög miklu álagi á heilbrigðiskerfið og veikindum með dauðsföllum á hverju ári. ttps://ecdc.europa.eu/en/seasonal-influenza/facts/factsheet
Árlega verða dauðsföll vegna inflúensu og inflúensutengdra sýkinga. Sjá nánar svar við spurningu 3.
Þó svo að ósamræmi sé við einn veirustofn bóluefnisins geti komið fyrir þá er það sjaldgæft og yfirleitt samræmi við hina tvo stofnana sem veita þá vernd gegn þeim.
Bólusetning heilbrigðisstarfsmanna gegn inflúensu er þeim að kostnaðarlausu. Yfirmenn klínískra deilda sjá um að bólusetja sitt starfsfólk en starfsmannahjúkrunarfræðingar sjá jafnframt um að bólusetja starfsfólk á auglýstum tímum.
Þar sem nýjar veirur koma á hverju ári, er vörn fyrri bólusetninga/sýkinga ekki nægjanleg til að koma í veg fyrir að starfsmenn geti sýkst og smitað frá sér. Fyrri bólusetningar örva þó alltaf ónæmiskerfið og hindra mögulega að nýjar sýkingar verði eins slæmar- samanber alvarleika veikinda þegar heimsfaraldurs umbreytingarstofna birtast; þar sem fyrra ónæmi gegn þeim er ekkert.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?