Leit
Loka

Á Landspítala hefur skapast sú hefð á ársfundi spítalans að heiðra starfsfólk fyrir góð störf í takt við gildi og stefnu spítalans. Tilnefningar hafa verið sóttar til starfsfólks spítalans en að þessu sinni verður opið fyrir tilnefningar frá starfsfólki, stjórnendum, sjúklingasamtökum, sjúklingum og aðstandendum. Auglýst verður eftir tilnefningum á ytri vef spítalans.

Markmiðið með heiðrunum er að draga fram það fjölbreytta starf sem starfsfólk Landspítala vinnur og beina sérstaklega sjónum að öllum aukaskrefunum sem starfsfólk stígur til að sýna umhyggju og fagmennsku í starfi og tryggja góða þjónustu við sjúklinga. Þema ársfundar 2024 er þjónusta við sjúklinga og því er sérstaklega horft til þeirra þátta sem ýta undir góða og faglega meðferð og gera upplifunina af því að leita til spítalans eins góða og mögulegt er.

Heiðranir eru í nokkrum flokkum og geta náð til bæði einstaklinga og teyma. Tilnefningu þarf að skila með rökstuðningi og í gegnum sérstakt form (sjá neðar á síðunni).


Fyrirkomulag heiðrunar

Heiðrun eru veitt í fjórum flokkum sem taka mið af gildum spítalans, auk þess sem sérstaklega eru veitt heiðrun til einstaklings eða teymis fyrir sérstakt framlag til að gera Landspítala að góðum vinnustað. Í rökstuðningi er óskað eftir að greind séu dæmi til að rökstyðja hvers vegna viðkomandi einstaklingur eða teymi ætti að fá viðurkenningu.

1. Umhyggja

Við berum umhyggju fyrir sjúklingum, aðstandendum, samstarfsfólki og samfélagi okkar.

Í þessum flokki er veitt viðurkenning til starfsfólks og teymis sem sýna sérstaka umhyggju í starfi. Sérstaklega er horft til umhyggju gagnvart sjúklingum og aðstandendum en slík umhyggja getur haft mikil áhrif á upplifun fólks af þjónustu spítalans og ýtt undir bata.

2. Öryggi

Við tryggjum öryggi sjúklinga og starfsmanna.

Heiðrun í þessum flokki fer til starfsfólks og teymis sem eru framúrskarandi í öryggismálum og gæðastarfi. Hér er til dæmis horft til frumkvæðis í að stuðla að umbótum á ferlum og verklagi sem auka öryggi sjúklinga og ýta undir batamiðað umhverfi.

3. Fagmennska

Við höfum fagmennsku að leiðarljósi í öllum okkar störfum.

Með heiðrun fyrir fagmennsku er meðal annars horft til starfsfólks og teyma sem leggja sig sérstaklega fram um fagleg vinnubrögð, hvort sem er í klínísku starfi eða öðrum störfum innan spítalans.

4. Framþróun

Við vinnum að stöðugum umbótum og nýtum gagnreynda þekkingu og viðeigandi tækni.

Heiðrun fyrir framþróun er veitt starfsfólki og teymi sem hafa stuðlað að framþróun á spítalanum. Þetta getur meðal annars náð til þess að innleiða nýja þekkingu, stuðla að nýrri eða breyttri notkun á tækni eða ýta undir rannsóknir sem eru til þess fallnar að bæta meðferð og þjónustu við sjúklinga.

5. Vinnustaðurinn okkar

Að halda starfsemi Landspítala gangandi kallar á óteljandi handtök og starfsfólk Landspítala er vant að takast á við álag í starfi. Við þekkjum það líka öll að andspænis öllum daglegu, árstíðabundnu og óvæntu áskorununum er ómetanlegt að eiga góða vinnufélaga. Þessi heiðrun fer til einstaklings eða teymis sem gera vinnudaginn betri og hjálpa okkur við að halda þessu öllu gangandi þegar á móti blæs.

 

* Tilnefna má starfsmann eða teymi
** ATH! Má sleppa ef um er að ræða hóp