Hjúkrunarfræðingar á meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma
Við óskum eftir að ráða hjúkrunarfræðinga á meðferðareiningu geð- og fíknisjúkdóma. Við leitum að hjúkrunarfræðingum í 50-100% starf, dagvinnu eða vaktavinnu eftir samkomulagi.
Markhópur meðferðareiningarinnar eru einstaklingar með tvíþættan vanda; alvarlega geðsjúkdóma og alvarlegan fíknivanda. Undir meðferðareininguna heyra bráðalegudeild, dagdeild (Teigur), göngudeild, vettvangsgeðteymi (Laufeyjarteymi) og afeitrunardeild ólögráða ungmenna. Hjá okkur er góður starfsandi, starfsemin er í stöðugri framþróun og unnið er að fjölbreyttum umbótaverkefnum.
Um er að ræða spennandi og gefandi störf þar sem unnið er í þverfaglegum teymum þvert á meðferðareininguna. Áherslur eru mismunandi á starfsstöðvum en þær eru meðal annars skaðaminnkun, batamiðuð hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtal og geðlæknisfræði.
Hjúkrunarfræðingar sinna lykilhlutverki í störfum á einingunni. Þeir sinna allt frá nærþjónustu á vettvangi til sérhæfðra meðferða á bráðalegudeild.
Bæði er leitað að reynslumiklum hjúkrunarfræðingum og hjúkrunarfræðingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í geðhjúkrun. Á meðferðareiningunni eru mikil tækifæri til vaxtar og sérhæfingar. Starfsaðlögun er markviss og einstaklingshæfð.
Á geðþjónustu Landspítala er möguleiki að sækja um sérhæft starfsþróunarár fyrir hjúkrunarfræðinga til að efla faglega framþróun og öryggi í starfi. Jafnframt er Landspítali með miðlægt starfsþróunarár.
Upphaf ráðningar er frá 1. apríl 2025 eða eftir nánara samkomulagi.
- Að taka þátt í að ákveða, skipuleggja og veita viðeigandi hjúkrunarmeðferðir
- Virk þátttaka í þverfaglegum teymum
- Samskipti, hvatning og víðtækur stuðningur við skjólstæðinga og aðstandendur þeirra
- Þátttaka í umbótastarfi og þróun þjónustunnar
- Íslenskt hjúkrunarleyfi
- Reynsla af geðhjúkrun er kostur
- Faglegur metnaður og einlægur áhugi á geðhjúkrun og skaðaminnkun
- Góð samskiptahæfni
- Hæfni til að vinna sjálfstætt
- Jákvætt hugarfar, metnaður og áhugi á að starfa í þverfaglegu teymi
- Stundvísi og áreiðanleiki
- Færni til að skipuleggja og forgangsraða verkefnum
- Góð almenn tölvukunnátta
- Góð færni í íslensku og ensku, bæði í töluðu og rituðu máli
Frekari upplýsingar um starfið
Allar umsóknir þurfa að fara rafrænt í gegnum ráðningarkerfi ríkisins. Umsókn fylgi náms- og starfsferilskrá ásamt kynningarbréfi og afriti af prófskírteinum og starfsleyfi. Fylgiskjöl skulu vera á pdf formi.
Tekið er mið af jafnréttisstefnu Landspítala við ráðningar á spítalanum. Öllum umsóknum verður svarað.
Landspítali er lifandi og fjölbreyttur vinnustaður þar sem um 7000 einstaklingar starfa í þverfaglegum teymum og samstarfi ólíkra fagstétta. Framtíðarsýn Landspítala er að þar sé veitt framúrskarandi heilbrigðisþjónusta byggð á vísindum, fagmennsku og umhyggju, öflugu fagfólki og studd með umgjörð og aðbúnaði sem sómi er að.
Landspítali hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012, úttekt framkvæmd af Versa vottun ehf.
Umsóknir geta gilt í 6 mánuði frá birtingu auglýsingar, sbr. 3. tl. 2. mgr. 2. gr. reglna nr. 1000/2019 um auglýsingar lausra starfa með síðari breytingum.
Starfsmerkingar: Heilbrigðisþjónusta, hjúkrunarfræðingur, hjúkrun, teymisvinna
Tungumálahæfni: íslenska 4/5, enska 4/5