Skurðaðgerð við brjóstakrabbameini
Ákvörðun um tegund aðgerðar á brjóstinu byggist m.a. á tegund krabbameins, stærð þess, legu meinsins í brjóstinu og stærð brjóstsins.
Hagnýtar upplýsingar
Skurðaðgerð er oftast fyrsta meðferð við brjóstakrabbeini þegar greining er ljós og öllum rannsóknum lokið. Þá er krabbameinið fjarlægt úr brjóstinu og eitlar teknir úr holhönd sömu megin.
Allur undirbúningur fyrir aðgerð fer fram á Brjóstamiðstöðinni, yfirleitt nokkrum dögum áður. Þá eru teknar blóðprufur og gerðar aðrar rannsóknir sem mikilvægar eru fyrir aðgerðina. Einnig er viðtal við svæfingarlækni og hjúkrunarfræðing og gefnar upplýsingar um undirbúning og hvar og hvenær á að koma til aðgerðar.
Skurðaðgerðirnar eru gerðar í húsi kvennadeilda Landspítala og eftir aðgerð leggjast konurnar inn á kvenlækningadeild 21A.
Meðal legutími eftir fleygskurð er einn dagur og tveir eftir brottnám en eitthvað lengri eftir brjóstauppbyggingar.
Í meirihluta tilfella er nægjanlegt að taka krabbameinið ásamt aðliggjandi eðlilegum brjóstavef (fleygskurður) en stundum er nauðsynlegt að fjarlægja allt brjóstið (brjóstnám).
- Hér á landi fara ca. 60% nýgreindra kvenna í fleygskurð en 40% í brjóstnám
Til þess að fleygskurður geti talist fullnægjandi meðferð verður að fjarlægja allt meinið og aðlægan vef úr brjóstinu án þess að valda verulegu lýti eða afmyndun á brjóstinu.
Yfirleitt tekst þetta með einni aðgerð en stundum þarf aðra aðgerð ef kemur í ljós við smásjárskoðun á sýninu sem fjarlægt var að meinið reynist stærra en myndgreiningar fyrir aðgerð gáfu tilefni til að ætla.
Þetta gerist í allt að fimmtungi tilfella.
Langoftast er geislameðferð veitt á brjóstið í kjölfar fleygskurðar og eru lífshorfur þeirra sem fara í fleygskurð og geislameðferð sambærilegar og hjá þeim sem fara í brjóstnám.
Aðferðir til að koma í veg fyrir lýti á brjóstinu vegna fleygskurðar geta aukið umfang skurðaðgerðarinnar.
Í stórum brjóstum er til að mynda stundum mælt með því að fjarlægja meinið og minnka brjóstið í leiðinni og er þá heilbrigða brjóstið minnkað á sama hátt.
Aðgerðir af þessu tagi auka möguleika á því að gangast undir fleygskurð í stað brjóstnáms og að auki er geislameðferð á minna brjóst auðveldari og markvissari en á mjög stór brjóst.
Stundum er mælt með brjóstnámi, þ.e. fullu brottnámi brjóstsins.
Helstu ástæður fyrir því eru:
- Konan kýs brjóstnám
- Konan er smábrjósta og taldar eru miklar líkur á afmyndun á brjóstinu eftir fleygskurð
- Það eru fleiri en eitt mein í brjóstinu
- Meinið er í miðju brjósti, sérstaklega á svæðinu kringum geirvörtu og vörtubaug
Þegar fjarlægja þarf allt brjóstið er oft hægt að hefja uppbyggingu í sömu aðgerð ef konan óskar þess (tafarlaus brjóstauppbygging).
Ef miklar líkur eru taldar á að geisla þurfi brjóstvegginn eftir brjóstnám er yfirleitt mælt með því að gefa þá meðferð áður en brjóst er byggt upp að nýju.
Brjóst er byggt upp annað hvort með eigin vef konunnar eða að gervibrjósti er komið fyrir undir húð og brjóstvöðva. Stundum er hvort tveggja notað.
Uppbygging brjósts eftir brjóstnám er talsvert umfangsmeiri aðgerð en hefðbundin krabbameinsskurðaðgerð.
Alloft þarf að gera aðgerðir á báðum brjóstum til þess að koma í veg fyrir misræmi í stærð og útliti.
Frekari upplýsingar um þessar aðgerðir eru veittar í viðtölum fyrir aðgerðina, fræðirit um þær eru lánaðar, auk þess sem konan fær tækifæri til að ræða við aðrar konur sem hafa farið í slíkar aðgerðir.
Aðdragandi uppbyggingaraðgerðar getur tekið tíma vegna þess að miklum upplýsingum þarf að miðla og stundum er þörf á því að hitta sérfræðing nokkrum sinnum áður en endanleg ákvörðun er tekin.
Allar konur sem eru að hugleiða brjóstauppbyggingu eru hvattar til að kynna sér möguleikana vel og mikilvægt er að þær taki virkan þátt í að velja aðgerð undir leiðsögn sérfræðingsins.
Skurðlæknar starfseiningar okkar eru sérhæfðir í skurðaðgerðum brjóstakrabbameina og vinna saman að því að fá sem bestu útkomu í hverju tilfelli, bæði hvað varðar það að fjarlægja krabbameinið og að útlit brjóstins verði sem best.
Algengt er að dren (sogslanga tengd við poka) sé sett undir húð eftir brjóstaaðgerðir.
Pokinn sem tengdur er við drenið er tæmdur einu sinni á dag.
Drenið er haft á sínum stað þar til minna en 30 millilítrar koma í pokann á sólarhring en yfirleitt þó ekki lengur en í 7-10 daga.
Fræðsluefni
Vökvasöfnun undir húð eftir brottnám á brjósti og eitlum (pdf)
Í flestum tilfellum eru holhandareitlar fjarlægðir samfara aðgerðinni á brjóstinu.
Undanfarin ár hefur nýrri aðferð verið beitt við brottnám holhandareitla. Hún felst í því að fjarlægja „varðeitla“ en það eru þeir eitlar sem líklegastir er til að hafa í sér krabbamein (meinvarp) ef það hefur dreifst út fyrir brjóstið.
Varðeitlar, einn eða fleiri, eru skoðaðir með smásjárrannsókn meðan á aðgerð stendur og ef krabbamein er til staðar í einhverjum þeirra eru fleiri eitlar fjarlægðir úr holhöndinni.
Þeim konum sem ekki eru með krabbamein í þessum eitlum er hlíft við frekari eitlatöku.
Tvær grunnaðgerðir eru notaðar til þess að fjarlægja krabbamein úr brjósti; fleygskurður og brjóstnám. Til viðbótar brjóstaaðgerðinni eru oftast teknir eitlar úr holhönd.
Fleygskurður felst í því að meinið er fjarlægt með svolitlu af eðlilegum vef allt í kring.
Mest af brjóstinu er skilið eftir og reynt að afmynda það sem minnst.
Stundum er skurðurinn gerður beint yfir meininu og svolítil húð tekin með en oft er hægt að hafa skurðinn þar sem ör verður lítið áberandi, t.d. í kringum vörtubauginn.
Flestar konur sem fara í fleygskurð fá geislameðferð á brjóstið eftir aðgerð til þess að minnka líkur á endurkomu sjúkdómsins.
Ef konan er stórbrjósta getur verið mögulegt að fjarlægja meinið og gera brjóstaminnkun um leið. Með þessum hætti getur verið unnt að fjarlægja stór mein án þess að þurfa að gera fullt brottnám og án þess að valda afmyndun á brjóstinu.
Stundum er mælt með þess konar aðgerð til þess að auðvelda geislameðferðina en erfitt er að geisla mjög stór brjóst.
Samfara aðgerð á brjóstinu með meininu er hitt brjóstið oft minnkað til samræmis.
Stundum er mælt með því að fjarlægja allt brjóstið, svokallað brjóstnám.
Sumar konur kjósa brjóstnám sjálfar.
Aðrar ástæður fyrir brjóstnámi geta m.a. verið að fleiri en eitt mein séu í brjóstinu, að meinið sé í miðju brjósti sérstaklega í kringum geirvörtu eða vörtubaug eða að brjóst sé lítið og því miklar líkur á verulegri afmyndun þess eftir fleygskurð.
Ef konan fer ekki í uppbyggingu á brjósti samfara brjóstnámi er reynt að hafa skurðinn neðarlega á brjóstkassanum þannig að brjóstveggurinn verði sléttur og án fellinga til þess að auðveldara sé að hafa ytra gervibrjóst.
Dren eða sogslanga sem tengd er við poka er sett undir húðina og fjarlægt þegar rennsli er minna en 30 millilítrar á sólarhring.
Dren er þó ekki látið sitja lengur en í u.þ.b. eina viku.
Við útskrift af legudeild fær konan bráðabirgðapúða sem settur er í brjóstahaldarann. Þegar mar og bólgur hafa hjaðnað fær konan varanlegan púða og brjóstahaldara.Óháð því hvaða aðgerð er gerð á brjóstinu er oftast gerð einhvers konar aðgerð á eitlum í holhönd eins og fyrr hefur komið fram.
Ef ekki er grunur um útsæði eða meinvörp í eitlum er gerð svokölluð varðeitlataka þar sem einn eða fáeinir eitlar úr neðri hluta holhandarinnar eru fjarlægðir og rannsakaðir meðan á aðgerð stendur. Ef krabbamein finnst ekki í neinum af þeim eitlum þarf ekki að gera meira en sé meinvarp í einhverjum þeirra er gerð eitlatæmingaraðgerð úr holhöndinni.
Hafi krabbamein greinst í eitlum fyrir aðgerð er farið beint í eitlatæmingu.