Stefnumótunarfundur var haldinn á vegum geðsviðs Landspítala þann 15. september 2018 og var yfirskrift dagsins „Geðsheilbrigðisþjónusta - Sjúklingurinn í öndvegi“.
Tilgangur fundarins var að skerpa á hlutverki og ábyrgð geðsviðs Landspítala sem sinnir sérfræðiþjónustu en jafnframt var litið til samspils, ábyrgðar og hlutverks annarra stofnana. Sérstök áhersla var á samvinnu, skýra verkaskiptingu og notendamiðaða þjónustu.
Ríflega hundrað manns sóttu fundinn frá flestum þeim stofnunum og samtökum sem sinna þessum málaflokki. Unnið var í hópum og var mikill samhljómur meðal fundargesta sem hvetja stjórnvöld til að nýta sér niðurstöður fundarins til frekari stefnumótunarvinnu í málaflokknum í heild. Áhersla var lögð á að fjármögnun þyrfti að fylgja aðgerðaráætluninni.