Leit
Loka

Ávarp Runólfs Pálssonar forstjóra á ársfundi Landspítala 2024

 

 

Ávarp forstjóra á ársfundi Landspítala á myndskeiði (Linkur á Vimeo)

Heilbrigðisráðherra, kæra samstarfsfólk og góðir gestir, 

Það gleður mig að sjá þann áhuga sem ársfundi Landspítala er sýndur. Fundurinn í ár ber yfirskriftina Þróun í takt við þarfir sjúklinga.

Þessi yfirskrift er einkar viðeigandi þar sem ég hef lagt sérstaka áherslu á sjúklingamiðaða nálgun í stefnumörkun minni sem forstjóri og mun gera það áfram. Það má kannski segja að ársfundurinn í fyrra hafi verið ákveðinn inngangur að því samtali sem við munum eiga hér í dag. Ný samskiptastefna spítalans var þá til umfjöllunar, sem og ýmsar hliðar faglegra samskipta í þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Grundvöllur góðrar þjónustu sem er í takt við þarfir sjúklinga er að heilbrigðisstarfsmenn, og aðrir sem starfa innan heilbrigðisþjónustunnar, leggi sig fram við að hlusta á sjúklinga, hlusta á þeirra sjónarmið, hlusta á þá deila sinni upplifun og nýta samskiptin sem gagnlega leiðsögn. Þetta eykur ekki aðeins líkurnar á því að við skiljum betur vandamál sjúklinga heldur eykur þetta einnig traust þeirra til okkar og heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er inntak verkefnis sem verður kynnt hér á ársfundinum undir yfirskriftinni „Ábendingar sjúklinga – auðlind fyrir starfsemina“ – frábært verkefni sem kafar djúpt í starfsemi sem er mér afar kær.

Eins og við vitum öll þá hefur eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu aukist jafnt og þétt og mun gera það áfram. Það er ljóst að ekki verður hægt að anna aukinni eftirspurn á hefðbundinn hátt í öllum tilvikum. Við verðum að nýta tækni til efla getu okkar til að veita þjónustu með fjölbreyttu sniði og tel ég okkur þurfa að fara í stórsókn á þeim vettvangi. Heilbrigðisstarfsfólk eyðir miklum tíma við tölvuskjá – einkum við skráningu í sjúkraskrá sem sannarlega er nauðsynleg – en við það tapast dýrmætur tími sem annars væri unnt að verja í samskipti við sjúklinga og aðstandendur. Þróun tæknilausna og annarra úrræða sem gera klíníska skráningu markvissari og skjótvirkari og styttir þannig tíma starfsfólks við tölvuskjáinn er nauðsynleg. Jafnframt þurfum við að halda áfram þróun snjalllausna til miðlunar upplýsinga og fræðslu fyrir sjúklinga og aðstandendur. Það er mikilvægt að vanmeta ekki hæfni sjúklinga sem á komandi árum munu verða æ ríkari þátttakendur í eigin meðferð. Allt bendir til þess að þeir muni í auknum mæli fá aðgang að upplýsingum um sína þjónustu, meðal annars aðgang að eigin sjúkraskrá. Þessi þróun hefur verið að ryðja sér til rúms í öðrum löndum. Innan þróunarsviðs spítalans er unnið ötullega að starfrænum lausnum og hefur þegar náðst eftirtektarverður árangur. Geta má þess að á síðasta ári var Landspítali valinn UT-fyrirtæki ársins – það er mikill heiður sem við erum stolt af. Samhliða okkar eigin þróunarstarfi tel ég að aukið samstarf við nýsköpunarfyrirtæki sé mikilvægt fyrir spítalann.

Þrátt fyrir góðan árangur innan okkar raða tel ég skorta skýrari stefnumörkun á sviði stafvæðingar í heilbrigðisþjónustunni á landsvísu. Raunar megum við engan tíma missa því þörfin er orðin mjög brýn auk þess sem margvísleg tækifæri eru fyrir hendi um þessar mundir, meðal annars með nýtingu gervigreindar. Stafrænar lausnir eru stundum kynntar til sögunnar sem einhvers konar sparnaðaraðgerð en staðreyndin er sú að þessi vegferð kallar líka á verulegar fjárfestingar eigi tilætlaður árangur að nást. Það er til mikils að vinna, ekki síst þar sem skynsamleg innleiðing tæknilausna getur aukið skilvirkni en einnig stuðlað að aðlaðandi vinnuumhverfi.

En tækifærin liggja víða og metnaðurinn er mikill. Íslensk heilbrigðisþjónusta býr yfir gríðarlegum tækifærum á sviði einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu. Rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa sett Íslendinga í einstaka stöðu á heimsvísu þegar kemur að nýtingu erfðaupplýsinga í einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu. Skapa þarf leiðir til að unnt verði að nýta í klínísku starfi fyrirliggjandi erfðaupplýsingar sem aflað hefur verið með vísindarannsóknum. Hans Tómas Björnsson mun fjalla um þetta í erindi sínu hér á eftir en Hans Tómas er einn af öflugustu vísindamönnum Landspítala.

Á ársfundi spítalans er viðeigandi að líta um öxl og rýna í starfsemi liðins árs til að greina hvar nauðsynlegra umbóta er þörf og leiðir að því marki. Vegna þráláts skorts á legurýmum og mikils fjölda sjúklinga sem jafnan beið innlagnar á bráðamóttökunni í Fossvogi var þróað samræmt fyrirkomulag til að dreifa álagi vegna innlagna á bráðalegudeildir á stigvaxandi máta. Það er skemmst frá því að segja að á seinni hluta ársins var spítalinn oftsinnis á hæsta innlagnarstigi. Þessi staða var afar íþyngjandi fyrir starfsfólkið sem að vanda stóð sig með eindæmum vel.

Þegar horft er til næstu ára blasa við stórar áskoranir vegna ófullnægjandi húsnæðis sem kemur í veg fyrir að unnt verði að mæta aukinni þjónustuþörf á viðunandi hátt. Eins og margsinnis hefur komið fram þá stafar sá legurýmiskortur sem spítalinn býr við að verulegu leyti af því að ekki er hægt að útskrifa fólk sem lokið hefur meðferð á spítalanum og bíður varanlegrar búsetu með stuðningi, annað hvort í hjúkrunarrými eða öðru úrræði. Með samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og stjórnendur hjúkrunarheimila tókst að skapa okkur andrými þegar mest á reyndi. En róðurinn þyngist stöðugt og því hef ég ítrekað vakið athygli á að spítalinn getur ekki starfað áfram með þessum hætti. Byggingu meðferðarkjarnans við Hringbraut miðar vel en því miður er of langur tími þar til þetta nýja húsnæði verður tekið í notkun. Nauðsynlegt er að bregðast við með tímabundinni lausn svo að spítalinn geti rækt hlutverk sitt sómasamlega. Loks er brýnt að á næstu árum verði unnið að því að afmarka hlutverk Landspítala í takt við heilbrigðistefnu til ársins 2030 en það kallar á að þjónusta annarra þátta heilbrigðiskerfisins verði efld. Óskýr landamæri eru eitt af sérkennum íslenska heilbrigðiskerfisins. Þrátt fyrir að vísi að hlutverkaskiptingu sé að finna í lögum og reglugerðum þá rata góð áform ekki alltaf í framkvæmd. Óskýr hlutverkaskipan skapar hættu á að þjónusta sé veitt á röngu þjónustustigi og að sjúklingar falli milli þilja. Þetta sjáum við reglulega á Landspítala og ekki síst hjá sjúklingum sem leita til okkar eftir mikla þrautagöngu í gegnum heilbrigðiskerfið. Enn fremur leiðir óreiða í skipulagi til sóunar. Þar er verk að vinna bæði innan Landspítala sem utan.

Einn veigamikill þáttur í starfsemi Landspítala er hlutverk spítalans sem háskólasjúkrahús. Það hlutverk er almenningi kannski að nokkru hulið en án menntunar og vísinda má íslensk heilbrigðisþjónusta sín lítils. Því miður hafa á síðustu árum komið fram vísbendingar um hnignandi árangur á sviði vísindarannsókna sem einkum birtist í fækkun fræðigreina í erlendum tímaritum og tilvitnunum í þær. Þessi þróun varðar ekki eingöngu Landspítala heldur hefur einnig áhrif á samstarfsstofnun okkar, Háskóla Íslands, vegna leiðandi hlutverks spítalans á vettvangi klínískra rannsókna. Á sama hátt og við viljum veita framúrskarandi klíníska þjónustu á Landspítala þá viljum við að menntun og vísindastarf sé í fremstu röð. Við verðum að snúa þessari neikvæðu þróun við. Við verðum að tryggja vísindastarfseminni þann sess sem henni ber í ljósi þess að um er að ræða eitt af lykilhlutverkum spítalans, auk þess sem öflugt vísindastarf stuðlar yfirleitt að auknum gæðum klínískrar þjónustu. Þetta verðum við að gera á sama hátt og þekkist á erlendum háskólasjúkrahúsum. Við þurfum að halda á lofti því sem vel er gert á vísindasviðinu. Við þurfum að halda vel utan um vísindamenn spítalans og tryggja þeim bæði tíma og aðstöðu til sinna verka. Við þurfum að finna leiðir til að styðja við efnilega vísindamenn í upphafi ferils þeirra. Þannig getum við vonandi laðað að spítalanum fleiri öfluga vísindamenn. Loks þurfum við að styrkja innviði og umgjörð vísindastarfsins verulega og í því skyni auka samvinnu við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Uppbygging vísindastarfsemi Landspítala krefst óhjákvæmilega sérstakrar fjármögnunar. Jafnframt tel ég að efling samkeppnissjóða sé mikilvæg leið til styrkja vísindastarf á heilbrigðissviði til frambúðar.

Eitt af því sem veitir okkur starfsfólki Landspítala von um bjarta framtíð er nýbyggingin sem nú er óðum að taka á sig mynd við Hringbraut. Meðferðarkjarninn og rannsóknarhúsið munu valda straumhvörfum í starfsemi spítalans sem mun þá loks sameinast að langmestu leyti á einum stað. Í þessu sambandi má nefna að á næsta ári eru 25 ár síðan Landspítali og Sjúkrahús Reykjavíkur voru sameinuð í eina stofnun sem þá hlaut nafnið Landspítali – háskólasjúkrahús. Á þeim tíma, við síðustu aldamót, voru legurými hins sameinaða spítala samanlagt um 1260 en í dag eru þau um 650. Til að mæta þessari miklu fækkun legurýma hefur dag- og göngudeildarþjónusta verið efld til muna en betur má ef duga skal því verkefni aukast ört í takt við fólkfjölgun og öldrun þjóðarinnar. Því er brýnt að sem fyrst verði hugað að byggingu húss fyrir dag- og göngudeildarþjónustu á Hringbrautarlóðinni. Einnig er mikilvægt að flýta eftir fremsta megni byggingu nútímalegs húsnæðis fyrir geðþjónustu spítalans. Nýjar byggingar Landspítala munu bjóða upp á sveigjanleika til að mæta nýjum áskorunum. Fæst áttum við von á að þurfa að takast á við heimsfaraldur af þeirri stærðargráðu sem COVID-19 var en faraldurinn gerbreytti allri heilbrigðisþjónustunni á örskömmum tíma. Í nýju húsnæði Landspítala verður mun einfaldara að takast á við slíkar áskoranir.

Það er líka von mín að flutningur í hinar nýju byggingar við Hringbraut muni marka lokaáfanga í því sameiningarferli sem hófst fyrir aldarfjórðungi síðan. Við þurfum næstu ár að vinna markvisst að ýmsum aðkallandi verkefnum sem miða að því að samhæfa starfsemi spítalans áður en til flutnings kemur. Hér horfi ég til samræmingar verkferla og stöðlunar verklags þvert á spítalann en ekki síður til vinnustaðamenningar sem getur verið æði ólík eftir sviðum og deildum.

Rekstur spítalans á síðasta ári gekk nokkuð vel held ég að mér sé óhætt að segja. Umfangið er gífurlegt á þessum stærsta vinnustað landsins og fer stöðugt vaxandi. Til marks um það má geta þess að 20% fleiri sjúklingar leituðu til spítalans á árinu 2023 en árið 2019. Innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar gekk vonum framar. Árið 2023 var fyrsta árið þar sem raunverulega var stuðst við þessa fjármögnunaraðferð og margt bendir til þess að innleiðing hennar hafi þau áhrif að afköst aukist og er það til góðs fyrir sjúklinga og heilbrigðisþjónustuna í heild sinni. Rekstrarniðurstaða spítalans var jákvæð eins og nánar verður greint frá hér á eftir. Það er ekki síst að þakka góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld sem stutt hafa vel við spítalann en einnig veitt okkur sjálfsagt aðhald. Stjórn spítalans hefur einnig lagt sitt af mörkum en henni er meðal annars falið það hlutverk að styðja við forstjóra ásamt því að veita aðhald.

Ég hef starfað stærstan hluta míns starfsferils hér á spítalanum og ég hef séð ótal breytingar til góðs. Ég hef líka orðið var við stöðnun en sjaldnast afturför. Þær stjórnskipulagsbreytingar sem nýlega hafa verið innleiddar á Landspítala miða að því að styrkja og efla stjórnun í framlínu starfseminnar – í klínísku þjónustunni sem er meginhlutverk spítalans. Nýir stjórnendur í framlínu tóku til starfa 1. apríl síðastliðinn og bind ég miklar vonir við framlag þeirra því ég veit að þarna eru á ferð öflugir einstaklingar sem er umhugað um að efla starfsemi spítalans. Verkefnin eru vissulega ærin og þau halda áfram að hrannast upp. En með bættu skipulagi og aukinni skilvirkni stefnum við ótrauð að settu marki. Við hyggjumst ekki einungis auka þjónustu spítalans heldur einnig bæta gæði hennar.

Að lokum er ekki hjá því komist að hampa öflugu starfsliði Landspítala. Innan okkar mörgu veggja er að finna eitthvert mesta hugvit landsins. En mestu skiptir að á spítalanum starfar lausnamiðað fólk sem mætir alla daga með það að markmiði að lækna, hjúkra og líkna.

Við höldum okkar góða starfi áfram. Við ætlum að gera spítalann öflugri og betri með hverjum deginum. Við ætlum að mæta framtíðinni með jákvæðni og stolt að leiðarljósi.

Ég hlakka til að hlýða á framsöguerindi og umræður hér í dag. Ég stíg bjartsýnn inn í sumarið!

Ég þakka áheyrnina.

Glærur í ávarpi forstjóra Landspítala á ársfundi spítalans 2024

Aftur á forsíðu ársskýrslu Landspítala 2023

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?