Leit
Loka

Legudeild geðrofssjúkdóma

Legudeild geðrofssjúkdóma er geðdeild sem sinnir greiningu, meðferð og endurhæfingu fólks með geðrofssjúkdóma.

Deildarstjóri

Guðfinna Bettý Hilmarsdóttir

Yfirlæknir

Antonio Di Lieto

Banner mynd fyrir  Legudeild geðrofssjúkdóma

Hafðu samband

OPIÐAlla daga frá 8:00 - 16:00

Legudeild geðrofssjúkdóma - mynd

Hér erum við

Geðdeildarbygging, Hringbraut – 3. hæð gangur A

Hagnýtar upplýsingar

Geðdeildarbyggin við Hringbraut - Google kort

Bílastæði: Upplýsingar um bílastæði við Hringbraut

Strætóleiðir: Leiðir 1, 3 og 6 stoppa við Gömlu Hringbraut, Læknagarða og Klambratún. Leiðir 5 og 15 stoppa við Sjúkrahótelið og leið númer 18 stoppar á Snorrabraut.


Legudeild geðrofssjúkdóma er 16 rúma geðdeild sem sinnir greiningu, meðferð og endurhæfingu fólks með geðrofssjúkdóma og algengar fylgiraskanir eins og kvíða, þunglyndi og vímuefnavanda (tvígreiningarvandi).

Á deildinni er unnið samkvæmt hugmyndafræði batastefnunnar. Batamiðuð þjónusta felur í sér að styðja sjúklinga til að draga úr geðrænum einkennum, styrkja bjargráð og auka lífsgæði þeirra með áherslu á að þeir séu sjálfir sérfræðingar í eigin lífi.

  • Innlagnir á legudeild geðrofssjúkdóma koma frá bráðamóttöku geðþjónustunnar, frá öðrum deildum spítalans, eða frá göngudeildarteymum geðþjónustunnar. Að lokinni meðferð á deildinni útskrifast flestir í göngudeildarþjónustu á vegum spítalans.
  • Ástæður innlagnar eru versnandi geðrofseinkenni, fyrsta geðrof og/eða endurhæfing vegna geðrofssjúkdóms.
  • Á legudeild geðrofssjúkdóma starfa hjúkrunarfræðingar, ráðgjafar, læknar, sálfræðingar, félagsráðgjafi, atferlisfræðingur, lyfjatæknar og iðjuþjálfi í þverfaglegu teymi með sjúklingum.
  • Á deildinni er boðið uppá samtalsmeðferð, virknimeðferð, fræðslu, innsæisvinnu og lyfjameðferð. Markmið meðferðarvinnu er að auka lífsgæði og valdefla sjúklinga, draga úr hamlandi geðrofseinkennum og þjálfa upp bjargráð til að lifa með geðrofssjúkdóm.
  • Stuðningsviðtöl eru veitt af ráðgjöfum og hjúkrunarfræðingum. Þar geta sjúklingar rætt um og deilt innri upplifunum sínum, hugsunum og tilfinningum. Áhersla er á góða nærveru, virka hlustun og skilning. Einnig að leita bjargráða við vanlíðan. Sjúklingar í innlögn geta óskað eftir stuðningsviðtali hvenær sem er.
  • Legudeild geðrofssjúkdóma leggur mikla áherslu á fjölskylduvinnu. Aðstandendum er boðið að hitta meðferðaraðila  á meðan á innlögn stendur. Stuðningur er veittur og fræðsla, eftir þörfum hvers og eins.  

Geðrof er heilkenni geðrænna einkenna sem geta verið tímabundið ástand t.d. í tengslum við notkun vímuefna eða vegna svo kallaðra geðrofssjúkdóma en þekktastur þeirra er geðklofi.  

Geðrof hefur áhrif á það hvernig einstaklingurinn skynjar umhverfi sitt, hvernig hann hugsar og hagar sér. 

Sá sem veikist af geðrofi missir að einhverju leyti tengsl við raunveruleikann og upplifir ofskynjanir og ranghugmyndir.  

Sjúkdómseinkenni eru mjög einstaklingsbundin. Sumir hafa fá einkenni en aðrir hafa mörg einkenni.  

Einkennin breytast oft með tímanum.  

Algengustu einkenni geðrofs eru eftirfarandi:  

  • Ranghugmyndir eru hugmyndir sem einstaklingurinn trúir staðfastlega þó svo að skýr rök eða sannanir séu fyrir því að þær geti ekki átt sér stoð í raunveruleikanum.  Ranghugmyndir geta komið tímabundið fram í ýmsum geðröskunum t.d. þunglyndi.  
  • Aðsóknarranghugmyndir eru algengar í geðrofi t.d. getur viðkomandi haldið að nágrannar hans stjórni honum með rafsegulbylgjum. 
  • Tilvísunarranghugmyndir eru einnig algengar og lýsa sér t.d. með því að einstaklingurinn telur að ýmsir hlutir eða atburðir í umhverfinu hafi sérstaka merkingu sem beint er til hans. Þannig gæti viðkomandi til dæmis talið að auglýsingaskilti eða persóna í sjónvarpsþætti væri að senda honum skilaboð. 
  • Enn önnur tegund eru stjórnunarranghugmyndir sem snúast gjarnan um að einstaklingnum sé stjórnað af einhverjum utanaðkomandi öflum. 
  • Ofskynjanir geta tengst hvaða skynfæri sem er en heyrnarofskynjanir eru algengastar. Lýsa þær sér oftast með því að viðkomandi heyrir rödd eða raddir sem tala til eða um einstaklinginn. Raddir þessar lýsa gjarnan hegðun viðkomandi eða vara hann við einhverri aðsteðjandi hættu.  
  • Fólk í geðrofi vill oft ekki ræða um ofskynjanir sínar, jafnvel við sína nánustu.  
  • Hugsanatruflanir lýsa sér með því að skipulag og flæði hugsana er truflað.  Tengsl milli hugsana verða gjarnan órökrétt og erfitt getur reynst að skilja hvað viðkomandi á við þegar hann segir frá hugsunum sínum.  Oft virðist einstaklingurinn tala í kringum hlutina eða flakka á milli hugsana.  
  • Ýmis önnur einkenni geta fylgt geðrofi og geðrofssjúkdómum.   Mörg þeirra eru kölluð einu nafni eða neikvæð einkenni og lýsa sér í stuttu máli með því að ýmislegt í hugsunum og viðfangsefnum viðkomandi breytist eða hverfur.   Neikvæð einkenni birtast oft sem tilfinningaflatneskja, áhugaleysi, framtaksleysi og erfiðleikar við að skipuleggja og framkvæma ýmsar athafnir daglegs lífs. 
  • Um 3% einstaklinga munu fara í geðrof einhvern tímann á lífsleiðinni. Fyrsta geðrofið kemur í flestum tilfellum fram á árunum 16-30 ára.
  • Algengi þess að einstaklingar heyra raddir er á milli 4%-10%.
  • Allir geta lent í því að veikjast af geðrofssjúkdómi. Streita getur hrint af stað geðrofssjúkdómi en reynslan sýnir að fólk er misviðkvæmt fyrir streitu.
  • Allir geta lent í því að þurfa að glíma við geðrænan vanda. Rannsóknir sýna að helmingur fólks uppfyllir skilgreiningu geðræns vanda einhvern tímann á lífsleiðinni