Leit
Loka

Afhending dánarvottorðs
Læknir skal rita dánarvottorð og þarf það að liggja fyrir áður en kemur til útfarar.

Aðstandendur nálgast dánarvottorð á deild sjúklings eða hjá læknariturum. 

Afhendingarstaður þess er skráður í bæklinginn Eftir andlát ástvinar (pdf). 

Dánarvottorðið er afhent sýslumanni þar sem hinn látni átti lögheimili.

Hjá sýslumanni er síðan útgefið staðfestingarvottorð sem prestur, eða annar sem annast útförina, fær í hendur fyrir hana. 

Sjá frekari upplýsingar á vefsíðu Sýslumannsins í Reykjavík um tilkynningu andláts og formsatriði í tengslum við útför.

Séu áhöld um dánarorsök getur læknir óskað eftir leyfi aðstandenda til krufningar í læknisfræðilegum tilgangi.

Eins er aðstandendum heimilt að óska eftir krufningu sé einhver vafi í huga þeirra hvað þetta varðar.

Réttarkrufning er framkvæmd ef andlát ber að höndum skyndilega án þekktrar sjúkrasögu eða með voveiflegum hætti.

Vakni frekari spurningar í þessu sambandi er starfsfólk Landspítala ávallt reiðubúið til leiðsagnar. 

Á vef Embættis landlæknis má finna frekari upplýsingar.

Á Landspítala eru 6 kapellur sem eru notaðar í þjónustu presta og djákna og til samveru- og kyrrðarstunda.

Sjúkrahúsprestar og djákni á Landspítala liðsinna aðstandendum eftir því sem óskað er, leiða kveðjustund og veita nauðsynlegar upplýsingar um framvindu mála eða kalla til viðkomandi sóknarprest sé þess óskað.

Upplýsingar um sóknir þjóðkirkjunnar og presta má finna á vef Þjóðkirkjunnar.

Hvað úrvinnslu sorgarinnar áhrærir og veginn til huggunar eru djákni og prestar Landspítala fúsir til að beina aðstandendum á þá leið sem æskilegt eða nauðsynlegt er að fara, benda á aðra sem hjálpa, hagnýtt lesefni o.fl.

Í riti Landlæknisembættisins Menningarheimar mætast - áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar eru aðgengilegar upplýsingar varðandi trúarbrögð, lífsgildi og áhrif mismunandi menningar á athafnir daglegs lífs. 
 
Hér má nálgast lista yfir skráð trúfélög á Íslandi.

Til eru frjáls félagasamtök og hópar sem styðja syrgjendur við að takast á við sorgina.

Sorgarmiðstöð - Starfsemin felst í stuðningi við þá sem eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis ásamt almennri fræðslu og fyrirlestrum um sorg og sorgarviðbrögð.

Á vefnum Missir.is eru ýmsar upplýsingar og fræðsluefni fyrir einstaklinga sem vilja leita sér aðstoðar á erfiðum stundum.

Aðstandendur geta kynnt sér réttindi sín við fráfall maka eða foreldra hjá Tryggingastofnum eða Sjúkratryggingum Íslands.

Á vef Tryggingastofnunar eru upplýsingar um almenn réttindi við andlát.

Sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaga veita styrki vegna útfararkostnaðar.  Sem dæmi má nefna dánarbætur VR og dánarbætur Eflingar stéttarfélags 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?