Leit
Loka

Ávarp Runólfs Pálssonar forstjóra á ársfundi Landspítala 2023

 

 

Ávarp forstjóra á ársfundi Landspítala á myndskeiði (Vimeo)

Heilbrigðisráðherra, kæra samstarfsfólk, ágætu gestir!

Velkomin á ársfund Landspítala 2023!

Fyrir ári síðan hittumst við hér í Hörpu. Þá var vorið sérstaklega kærkomið eftir rúmlega tvö löng ár í glímu við heimsfaraldur. Ég upplifði á þeim tíma á vissan hátt blendnar tilfinningar fyrir framhaldinu, einlæga von um að faraldrinum væri lokið en óvissan var sannarlega til staðar. Að loknum ársfundinum kom starfsfólk Landspítala saman til að fagna vori og er skemmst að minnast þess að stemmingin var engu lík.

Sá vetur sem nú er að líða var okkur þó líka strembinn því auk veikinda af völdum COVID-19 herjuðu á landsmenn inflúensa og aðrar öndunarfærasýkingar. En nú er vetrarstormurinn yfirstaðinn, vorið gengið í garð á nýjan leik og við komum saman til að líta yfir farinn veg og horfa til framtíðar.

Þema þessa ársfundar er samskipti, undir yfirskriftinni: Í góðum tengslum – fagleg samskipti í starfi Landspítala. Góð samskipti eru mikilvæg fyrir okkur sem manneskjur en þau eru líka hornsteinn í fagmennsku heilbrigðisstétta. Ef samskiptum er ábótavant getur árangur meðferðar orðið lakari en ella. Góð samskipti eru jafnframt lykilþáttur í því að byggja upp traustan vinnustað.

Fyrir nokkrum árum samþykktum við starfsfólk Landspítala samskiptasáttmála og í dag ætlum við að rifja upp nokkur mikilvæg atriði sem sáttmálinn innifelur og stefnum svo að því að vinna markvisst með hann næstu misseri. Loks höfum við í fyrsta sinn sett okkur samskiptastefnu sem nær til samskipta út á við. Við fræðumst nánar um þessa þætti í þeim erindum sem eru á dagskrá fundarins í dag.

Um síðustu áramót tók gildi nýtt skipurit Landspítala og er það fyrsti áfangi veigamikilla skipulagsbreytinga sem fyrirhugaðar eru. Megintilgangurinn er tilfærsla ábyrgðar og ákvörðunarvalds til stjórnenda klínískrar þjónustu í framlínu; að samhæfa starfsemina, að efla liðsheildina og þannig bæta árangur okkar við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samstarfið við stjórn spítalans hefur verið með miklum ágætum en sú víðtæka reynsla sem stjórnarmeðlimir búa yfir mun án efa vera þýðingarmikil á komandi
misserum.

Fjallað verður nánar um skipuritið og hlutverk stjórnar í myndbandi hér á eftir og ég ætla því ekki að dvelja við það frekar.

En nú ætla ég að fjalla um nokkur af fjölmörgum viðfangsefnum í starfsemi Landspítala.

Á mörgum deildum spítalans hefur verið mikið álag. Ber þar hæst bráðamóttökuna í Fossvogi. Ástæðurnar fyrir þessu álagi eru margþættar og vissulega er það svo að á bráðamóttökum víðast hvar í heiminum eru aðstæður oft erfiðar. Á Landspítala er viðvarandi skortur á legurýmum fyrir bráðveika og birtingarmynd þess er hve skýrust á bráðamóttökunni. Við höfum ítrekað bent á þennan alvarlega vanda sem ekki síst stafar af skorti á úrræðum fyrir fólk sem lokið hefur meðferð á sjúkrahúsinu en er ekki fært um að útskrifast til síns heima. Þar skiptir mestu að uppbygging þjónustuúrræða fyrir aldraða hefur ekki verið í takti við þörfina. Stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða sem því miður hafa dugað skammt því verkefnið er stórt og flókið viðureignar. Og ekki fer viðfangsefnunum fækkandi með fólksfjölgun og hækkandi meðalaldri, ásamt geysimikilli fjölgun ferðamanna. Til að takast á við þessa stöðu þarf því allt í senn: metnað, aga og framtakssemi.

Til að bregðast við því óásættanlega álagi sem hefur verið viðvarandi á bráðamóttökunni um lengri tíma fól framkvæmdastjórn spítalans innlagnarstjóra að stýra innlögnum eftir vel skilgreindum verkferli. Er þetta gert til að dreifa álaginu innan bráðaþjónustu spítalans. Sjúklingar eru lagðir inn á allar bráðalegudeildir þó að rými skorti, samhliða því að tryggja tímanlegar útskriftir. Lögð verður áhersla á að efla ferliþjónustu vegna bráðra og aðkallandi vandamála og er bráðadagdeild lyflækninga nærtækt dæmi en hana þarf að styrkja enn frekar. Samhliða vinnum við að öðrum umbótaverkefnum og má í því samhengi nefna stafrænar lausnir, svo sem ferli tilvísana, endurskoðun á vinnuskipulagi lækna og tilfærslu verkefna milli fagstétta.

Það er ekkert launungamál að þessi aðgerð getur í einhverjum tilfellum aukið álag á legudeildum sem eru fullar fyrir. En þetta er engu að síður mikilvæg aðgerð til að tryggja öryggi sjúklinga og dreifa álaginu. Þetta er ekki óskastaða en þetta er staðan og við þurfum að vinna með hana.

Innleiðing þjónustutengdrar fjármögnunar stendur nú yfir á Landspítala en hún kallar á breytt vinnubrögð. Með þjónustutengdri fjármögnun standa vonir til að fjárveitingar verði í takt við afköst auk þess sem sóst er eftir auknu gagnsæi í rekstri stofnunarinnar. Þessi breyting á fjármögnun spítalans hefur lengi staðið til og er stórt framfaraskref.

Endurtekið hefur verið bent á nauðsyn þess að skilgreina betur hlutverk Landspítala til framtíðar. Raunar er hlutverk spítalans nokkuð vel skilgreint í lögum og reglugerðum en þrátt fyrir það hefur reynst erfitt að takmarka verkefni hans. Ég tel afar mikilvægt að aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar verði efldir til að koma í veg fyrir að verkefni sem eiga heima á öðrum þjónustustigum hrannist upp á spítalanum. Þetta er ekki síst þýðingarmikið fyrir hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús. Nýliðun heilbrigðisstarfsfólks til framtíðar byggir að stórum hluta á menntun sem Landspítali veitir. Öflugt vísindastarf er mikilvægt fyrir þróun þjónustunnar en er einnig ein leið til að laða hæft starfsfólk til starfa á stofnuninni. Vísindahlutverkið hefur ekki verið ræktað nægilega vel á undanförnum árum og er unnið að því að styrkja vísindastarfsemi spítalans í samvinnu við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Í pólitískri umræðu hefur því verið haldið fram að Landspítali sé botnlaus hít þar sem sívaxandi fjárveitingar hverfi jafnóðum. Að vissu leyti er þetta skiljanleg afstaða enda eru verkefnin óþrjótandi – rekstur spítalans gríðarlega flókinn og víðfeðmur – og verkefnin oft langt umfram það hlutverk sem spítalanum er ætlað. En við búum líka yfir gríðarlegri sérþekkingu og sérhæfingu sem við erum stolt af. Við náum góðum árangri þegar litið er til útkomu meðferðar. En það nægir þó ekki eitt og sér ef biðin eftir þjónustu er löng og upplifunin ekki eins og hún ætti að vera vegna álags á starfsfólk eða slælegs aðbúnaðar.

Nýverið var kynnt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu 5 ára. Í henni kemur bersýnilega í ljós að víða stendur til að draga seglin saman. Það er því bæði léttir og ánægjuefni hversu skýr afstaða er tekin til áframhaldandi uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut í áætluninni. Nýr Landspítali við Hringbraut mun halda áfram að rísa af fullum krafti og marka þáttaskil í veitingu heilbrigðisþjónustu hér á landi. Það er í mínum huga óumdeilt.

Við horfum með bjartsýni og eftirvæntingu til breyttra tíma en um leið áréttum við að spítalinn stendur nú þegar frammi fyrir miklum áskorunum í húsnæðismálum sem ekki þola bið. Það sem stendur spítalanum þó helst fyrir þrifum er skortur á heilbrigðisstarfsfólki – en skortur á heilbrigðisstarfsfólki hefur ekki bara keðjuverkandi áhrif í allri starfsemi spítalans heldur einnig út fyrir hann. Áskoranir við mönnun heilbrigðisþjónustu eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Hér, eins og víða annars staðar, er skorturinn tilfinnanlegastur í hjúkrun en einnig vantar starfsfólk í öðrum starfsstéttum og nýliðun í röðum ýmissa sérgreinalækna er áhyggjuefni. Þessi veruleiki er kominn til að vera og við þurfum að læra að fóta okkur við þær aðstæður sem af manneklu leiða. Við þurfum að ráðast í þær breytingar sem eru á okkar valdi með viðeigandi stuðningi stjórnvalda.

Nú stendur yfir vinna við skilgreiningu mönnunarviðmiða og endurskoðun á vinnufyrirkomulagi með það að markmiði að hver heilbrigðisstarfsmaður vinni störf þar sem hæfni, menntun og reynsla viðkomandi nýtist sem best. Þessi vinna fellur ekki alltaf vel í kramið hjá okkar ágætu fagstéttum sem byggja á ríkum hefðum sem oft eiga sér djúpar og sögulegar rætur. Í áratugi höfum við tekist á um hvar ábyrgð einnar fagstéttar sleppir og önnur fagstétt tekur við. Við verðum að finna leiðir til að skipuleggja starfsemina á þann veg að hægt sé að veita sem flestum þjónustu í hæsta gæðaflokki. Það blasa engar töfralausnir við en þó skref sem má taka og það ber okkur að gera. Við verðum óhjákvæmilega að skapa ný störf innan spítalans sem styðja við hlutverk okkar sérhæfða starfsfólks.

Það er líka í okkar höndum að byggja upp góða vinnustaðamenningu. Landspítali er fjölbreyttasti vinnustaður landsins. Á spítalanum starfar fólk af ólíkum kynjum, með ólíkan bakgrunn og menntun og af 65 þjóðernum. Á Landakoti er rekin sextán rúma deild þar sem starfar fólk frá tíu löndum, svo eitt dæmi af mörgum sé tekið. Þetta getur verið flókið, þetta getur reynt á en þetta gerir spítalann líka að einstaklega spennandi og líflegum vinnustað.

Menning inngildingar er mikilvæg í þessu samhengi, menning þar sem við mætum hvert öðru og sækjum styrk í að vera ólík. Samskiptasáttmálinn er lykilþáttur í þessu tilliti og ný mannauðsstefna - sem er í undirbúningi - mun líka skipta sköpum. Það hvílir rík ábyrgð á okkur stjórnendum Landspítala en einnig á öllu öðru starfsfólki spítalans. Saman eigum við að byggja á því sem við gerum vel til að móta framúrskarandi vinnustað þar sem fólki líður vel.

Kæra samstarfsfólk, ágætu gestir!

Íslendingar vilja eiga öflugt heilbrigðiskerfi sem þjónar öllum íbúum jafnt og við viljum að Landspítali sé verðug kjölfesta þess. Við búum yfir ótrúlegri sérhæfingu og sérþekkingu. Landspítali tekur ætíð við þar sem annarri þjónustu sleppir. Innan Landspítala eru unnin kraftaverk á degi hverjum – hver einn og einasti starfsmaður spítalans hefur áhrif á þessa merkilegu vinnu. Kjarninn í starfsemi spítalans eruð þið, starfsfólk Landspítala. Þið hafið staðið vaktina linnulaust fyrir alla þá sem hafa þörf fyrir ykkar þjónustu. Þið gerðuð það í gegnum heimsfaraldur og þið gerið það enn. Saman getum við gert spítalann aðeins betri í dag en hann var í gær. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að efla spítalann og fá samfélagið og stjórnvöld til liðs við okkur.

Kæra samstarfsfólk og aðrir gestir! Ég hef starfað á Landspítala allan minn starfsferil. Á þeim tíma hefur spítalinn gengið í gegnum súrt og sætt. Hið súra fær jú oft mikla athygli en við sem störfum á Landspítala þekkjum best hve magnað starf er unnið innan spítalans. Ég lít bjartsýnn fram á veginn, meðvitaður um að verkefnin verða krefjandi. En í krefjandi umhverfi – að fást við flókin viðfangsefni – þar liggja jú helstu styrkleikar okkar Landspítalafólksins.
Við lítum stolt um öxl á það sem við höfum áorkað og með bjartsýni til framtíðar. Við ætlum að halda áfram að byggja upp Landspítala sem flaggskip íslenska heilbrigðiskerfisins og við ætlum að skipa okkur í fremstu röð á heimsvísu.

Ég þakka áheyrnina. 

Glærur í ávarpi forstjóra Landspítala á ársfundi spítalans 2023

Aftur á forsíðu ársskýrslu Landspítala 2022

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?