Leit
Loka



BYLTUR OG BYLTUVARNIR

Byltur eru algengustu atvik hjá sjúklingum sem liggja inni á sjúkrahúsum. Hætta á byltum er mest hjá sjúklingum sem eru 65 ára eða eldri og hjá sjúklingum 50-64 ára sem metnir eru í byltuhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma eða ástands. Bylta er skilgreind sem atburður þar sem einstaklingur fellur óviljandi niður á gólf, jörð eða annan lágan flöt.
Byltur geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga og þeim fylgir gríðarlegur kostnaður.
Óraunhæft er að ætla að hægt sé að koma í veg fyrir allar byltur en erlendar rannsóknir sýna að með markvissum aðgerðum er hægt að fækka þeim umtalsvert og þar með draga úr þjáningum sjúklinga og kostnaði þeim samfara.

Óstöðugleiki og byltur eru algengar meðal aldraðra einstaklinga. Talið er að þriðjungur einstaklinga eldri en 65 ára, sem búsettir eru heima, muni detta einu sinni á ári. Meira en 50% einstaklinga á öldrunarstofnunum detta árlega og helmingur þeirra dettur endurtekið. Líkur á byltum aukast eftir því sem aldurinn færist yfir en tíðni þeirra tvöfaldast á fimm ára fresti eftir 65 ára aldur. Byltur eru með algengustu óvæntu atvikum sem skráð eru í atvikaskráningu á heilbrigðisstofnunum.

Afleiðingar byltna

Byltur geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga og þeim fylgir gríðarlegur kostnaður.
Afleiðingarnar geta verið ýmsir áverkar, beinbrot, verkir og færniskerðing. Byltur hafa oft alvarlegri afleiðingar á sjúkrahúsum heldur en úti í samfélaginu. Norsk skýrsla sýndi að tíðni brota var tvisvar sinnum hærri ef einstaklingar duttu á sjúkrahúsi heldur en heima hjá sér og að helmingur brotanna var mjög alvarlegur, eins og t.d. mjaðmabrot. Flestir sem duttu á rannsóknartímabilinu útskrifuðust á hærra þjónustustig en fyrir innlögn. Sama skýrsla sýndi að 47% einstaklinga sem hlotið höfðu byltu á sjúkrahúsi voru látnir einu ári eftir fyrstu skráðu byltuna.

Mjaðmabrot er ein af alvarlegum afleiðingum byltna en nýleg rannsókn á LSH leiddi í ljós 21% dánartíðni hjá konum og 36% hjá körlum einu ári eftir mjaðmabrot og tíðnin jókst með hækkandi aldri. Önnur íslensk rannsókn á sjúklingum sem gengust undir aðgerð vegna mjaðmabrots á Landspítala, leiddi í ljós að sjálfsbjargargeta þeirra sem lifa af mjaðmabrot var verulega skert, færri gátu búið á eigin heimili og fleiri þurftu vistun á hjúkrunarheimili.

Sálræn áhrif byltu geta einnig verið töluverð, meðal annars kvíði, þunglyndi og hræðsla við að detta aftur. Byltur geta því hrint af stað keðjuverkun atburða sem erfitt getur verið að stöðva. Skelkaðir einstaklingar verða ósjálfstæðir, breyta lífsmynstri sínu og hreyfa sig minna af hræðslu við að detta. Óttinn getur síðan dregið úr styrk, liðleika og úthaldi og leitt til fleiri byltna.

Orsakir og áhættuþættir byltna

Áhættuþættir byltna eru margir og oft samverkandi. Gjarnan er talað um innri og ytri þætti sem valda byltum. Með innri þáttum er átt við atriði sem varða sjúklinginn sjálfan, með ytri þáttum er átt við umhverfis- og atferlisþætti. Eftir því sem fleiri áhættuþættir eru fyrir hendi því meiri verður byltuhættan. Á meðal áhættuþátta má nefna sögu um fyrri byltur, óráð, hræðslu við byltur, jafnvægistruflun, minnkaðan vöðvastyrk, göngulagstruflun, réttstöðublóðþrýstingsfall, vannæringu, þvagleka, sjónskerðingu, fjölda lyfja, hjarta- og geðlyf, hættur í umhverfi og skort á notkun stuðnings- og hjálpartækja.
Byltur á heilbrigðisstofnunum eiga sér oft stað á fyrstu dögum innlagnar. Ástæður eru margvíslegar, svo sem hættur í umhverfi, slappleiki, minnkuð hreyfigeta og jafnvægistruflanir, fjöllyfjanotkun, óráð, þvagleki og tíð þvaglát. Óraunhæft er að ætla að hægt sé að koma í veg fyrir allar byltur en erlendar rannsóknir sýna að með markvissum aðgerðum er hægt að fækka þeim umtalsvert og þar með draga úr þjáningum sjúklinga og kostnaði heilbrigðiskerfisins.

Byltuvarnir og vinnulag á Landspítala

Aðgerðir í byltuvörnum á Landspítala eru byggðar á gagnreyndri þekkingu og er vinnulag skráð í gæðaskjöl í gæðahandbók spítalans, sjá hér nánar um Byltuhættu og byltuvarnir.Aðgerðirnar taka mið af alþjóðlegu klínísku leiðbeiningum um byltuvarnir. Markmið þeirra er að draga úr byltum með því að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að setja fram gagnreyndar meðferðir til að koma í veg fyrir byltur á spítalanum og draga úr alvarlegum áverkum tengdum þeim. Í leiðbeiningunum er mælt með kortlagningu algengra áhættuþátta bylta hjá öllum 65 ára og eldri og yngri einstaklingum sem eru í byltuhættu vegna undirliggjandi sjúkdóma eða ástands. Í framhaldi skal beina aðgerðum í byltuvörnum sértækt og einstaklingsmiðað að því að draga úr áhættuþáttum hjá sjúklingum.

Lögð er áhersla á að meðhöndla áhættuþætti sem hægt er að hafa áhrif á meðan á innlögn stendur. Sem dæmi er lyfjalisti yfirfarinn m.t.t. lyfja sem áhrif hafa á byltuhættu. Brugðist er við réttstöðublóðþrýstingsfalli. Ef óráð er til staðar er framkvæmd greining á orsökum og viðeigandi meðferð beitt. Fengin er ráðgjöf næringarfræðings ef vannæring greinist. Sjúklingi er leiðbeint um aðferðir sem örva eigin getu hans til að halda stöðugleika og auka öryggi við grunnathafnir daglegs lífs. Byltuhættur í umhverfi sjúklings eru fjarlægðar og viðeigandi hjálpartæki eru útveguð. Þá hafa margar deildir á Landspítala innleitt reglubundið öryggisinnlit til sjúklinga til að fyrirbyggja byltur.

Sjá nánar í gæðaskjölum:

Fyrir útskrift að spítalanum er metin þörf á heimilisathugun og hún framkvæmd í samráði við sjúkling og aðstandendur ef þörf þykir. Útveguð eru viðeigandi hjálpartæki og sjúklingi leiðbeint um notkun þeirra. Mikil áhersla er lögð á að meta þörf fyrir jafnvægisþjálfun eða annars konar endurhæfingu eftir útskrift og hún skipulögð. Því kerfisbundnar fræðilegar samantektir hafa sýnt að jafnvægisþjálfun getur komið í veg fyrir byltur og æfingaprógrömm sem beinast að forvörnum byltna hjá öldruðum virðast hindra áverka vegna byltna og fækka byltum sem leiða til sjúkrahúss innlagna.


Byltuvarnarvika 2020

Byltuvarnir – almennur fróðleikur

Jafnvægisæfingar

        Erfiðleikastig 1

        Erfiðleikastig 2

Styrkjandi og liðkandi æfingar

Önnur gagnleg myndbönd

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?