Leit
Loka

Vísindi á vordögum 2019

Vísindi á vordögum er uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala sem er haldin í lok apríl eða byrjun maí ár hvert. Á henni er árangur af vísindastarfi á spítalanum kynntur, veittar viðurkenningar, verðlaun og heiðrað fyrir vísindastarf. Einnig eru veittir styrkir til vísindastarfs.

Banner mynd fyrir  Vísindi á vordögum 2019

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir vísindadeildar 

Uppbygging rannsóknarinnviða er langtímaverkefni. Jákvæð teikn eru nú á lofti hér á spítalanum um að slík sókn sé að hefjast. Framkvæmdastjórn Landspítala samþykkti í janúar 2019, að tillögu vísindaráðs, nýja vísindastefnu fyrir spítalann og vænta má að aðgerðaáætlun og fjármögnun stefnunnar verði jafnframt tryggð. Einnig hefur á þessu ári verið bætt nokkuð í vísindasjóð spítalans fá fyrra ári, um 12 milljónum króna (13,6% hækkun).

Lesa meira

Helga Jónsdóttir

Helga Jónsdóttir var útnefnd heiðursvísindamaður Landspítala á Vísindum á vordögum 2. maí 2019.  Helga er prófessor í hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og forstöðumaður hjúkrunar langveikra fullorðinna í samtengdri stöðu á Landspítala. 

Nánar um útnefninguna

Þórir Einarsson Long

Þórir Einarsson Long var útnefndur ungur vísindamaður Landspítala á Vísindum á vordögum 2. maí 2019 og fékk 200 þúsund króna heiðursfé.

Nánar hér

Bertrand Andre Marc Lauth

Bertrand Andre Marc Lauth sérfræðilæknir fékk verðlaun Minninga- og gjafasjóðs Landspítala Íslands sem afhent voru á Vísindum og vordögum 2. maí 2019.  Verðlaunin nema tveimur milljónum króna.

Nánar hér

Runólfur Pálsson

Runólfur Pálsson yfirlæknir hlaut 5 milljóna króna verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði og skyldum greinum sem afhent voru á Vísindum á vordögum  2. maí 2019.  Verðlaunasjóðinn stofnuðu árið 1986 Árni Kristinsson og Þórður Harðarson, núverandi heiðursprófessorar við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknar við Landspítala.

Nánar um verðlaunaveitinguna

Vísindi á vordögum 2019 - Vinningshafar bestu veggspjalda með forstjóra Landspítala - ferðastyrkir

Þrír vísindamenn fengu ferðastyrki vísindaráðs Landspítala fyrir veggspjöld sín á Vísindum á vordögum 2019; Daði Helgason, Stefanía Bjarnason og Sólveig Anna Aðalsteinsdóttir. Hvert þeirra fékk 100 þúsund krónur.

Nánar um ferðastyrkina

Styrkhafar Vísindasjóðs Landspítala vorið 2019

Við vorúthlutun Vísindasjóðs Landspítala 2019 fengu 96 rannsóknarverkefni styrki, alls 87 milljónir króna.

Styrkhafar Vísindasjóðs Landspítala vorið 2019

 
Rósa Björk Barkardóttir

Frá vísindaráði Landspítala

Vísindastefna Landspítala 2019-2024

Árið 2018 var óvenju annasamt hjá vísindaráði Landspítala. Eitt af umfangsmeiri verkefnum ráðsins var endurskoðun á vísindastefnu spítalans en eitt af mikilvægari hlutverkum ráðsins er að vera forstjóra og framkvæmdastjórn spítalans til ráðgjafar um vísindastefnu og vísindastarf á Landspítala. Vinnsla nýrrar vísindastefnu byggði á tillögu að vísindastefnu sem ráðið hafði unnið árið 2013, gildandi vísindastefnu frá árinu 2007, niðurstöðum frá stöðufundi sem ráðið hélt 2017 með þeim sem fengið hafa hvatningastyrki úr Vísindasjóði Landspítala, og á upplýsingum sem aflað var með samtölum meðlima ráðsins við haghafa í nærumhverfi sínu.  Tillaga að nýrri vísindastefnu var einnig lesin af völdum aðilum innan spítalans áður en hún var send framkvæmdastjórn.  Í kjölfarið var tillaga að nýrri vísindastefnu send framkvæmdastjórn í apríl, kynnt á fundi framkvæmdastjórnar í október og tekin aftur til umræðu innan stjórnar í nóvember. Vísindastefna fyrir Landspítala 2019- 2024 var svo samþykkt af framkvæmdastjórn í janúar 2019. 

Eins og segir í nýrri vísindastefnu þá er öflug vísindastarfsemi  ein af mikilvægustu grunnstoðum hvers háskólasjúkrahúss og er forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun heilbrigðisstétta. Það er því rík ástæða fyrir því að fyrsta markmið nýrrar vísindastefnu Landspítala er að „vísindastarf innan Landspítala sé eflt og ástundun vísindalegra rannsókna sé samofin daglegri starfsemi“. Eins og hefur komið fram hefur því miður mátt merkja undanfarin ár ákveðna lægð í vísindastarfi almennt á spítalanum. Langflestir þeirra sem rætt var við í tengslum við endurskoðun á nýrri vísindastefnu kvörtuðu mjög ákveðið yfir skorti á tíma fyrir vísindin og nefndu sem aðalskýringu mikið vinnuálag í tengslum við klíníska vinnu. Það er mikilvægt að bregðast við þessu strax þó ljóst sé að um mikla áskorun er að ræða. Stjórnendur spítalans hafa lagt af stað í þá vegferð. 

Í framkvæmdakafla nýrrar vísindastefnu spítalans kemur fram að ein af höfuðáherslum nýrrar stefnu er að vinna að því að starfsfólk spítalans fái aukið svigrúm og tíma til að stunda vísindarannsóknir.  Í greinargerð sem fylgir nýrri vísindastefnu eru tilteknar nokkrar leiðir til að ná því markmiði.  Þar á meðal mikilvægi þess að við þarfagreiningar, gerð rekstraráætlana og mönnun deilda sé gert ráð fyrir vísindastarfi, á sama hátt og gert er ráð fyrir mönnun tengdri klínískri vinnu og kennslu. Einnig því að í ráðningarsamningum og starfslýsingum sé gert ráð fyrir skilgreindum tíma til vísindastarfa hjá starfsfólki spítalans sem hefur áhuga og getu til að stunda rannsóknir. Þá sé mikilvægt að vísindastarf sé hefðbundinn hluti af frammistöðumati starfsfólks. 

Fyrirferðamesta verkefni vísindaráðs á árinu 2018 var eins og fyrri ár umsjón með yfirferð og mati á umsóknum sem bárust Vísindasjóði Landspítala. Á grundvelli þessarar vinnu var úthlutað úr sjóðnum samtals 70 milljónum í vorstyrki til 90 vísindaverkefna og tæpum 15 milljónum í níu styrki til ungs vísindafólks á Landspítala til þess að kaupa sig frá klínísku starfi til að vinna að vísindarannsóknum. Til viðbótar, að beiðni stjórnar Minninga- og  gjafasjóðs Landspítala Íslands, valdi ráðið sérstaklega  tvö framúrskarandi verkefni, sem stjórn sjóðsins styrkti hvort fyrir sig með einni og hálfri milljón. Brynja Ingadóttir og Einar Stefánsson urðu þessa heiðurs aðnjótandi. Forsvarskonur sjóðsins veittu styrkinn við sérstaka athöfn á Vísinda á vordögum. Var þetta mikið og þakkarvert framtak hjá stjórn sjóðsins.

Vísindaráð sér um undirbúning Vísinda á vordögum ásamt vísindadeild. Eitt af ánægjulegri hlutverkum ráðsins í tengslum við þann undirbúning er að sjá um valið á heiðursvísindamanni Landspítala og ungum vísindamanni Landspítala. Valið á ungum vísindamanni Landspítala byggði á innsendum vísindaágripum en 71 ágrip hlutu samþykki og voru birt á rafrænu formi í Læknablaðinu. Fjórir ungir vísindamenn voru heiðraðir, þau Ása Bryndís Guðmundsdóttir, Bára Dís Benediktsdóttir, Elva Rut Sigurðardóttir og Ólafur Pálsson. Runólfur Pálsson var valinn heiðursvísindamaður Landspítala árið 2018.

Fyrir utan afhendingu styrkja  til vísindamanna Landspítala og heiðrunar okkar framúrskarandi vísindafólks er tilgangi Vísinda á vordögum að skapa vettvang fyrir starfsfólk Landspítala að hittast og gefa sér tóm til að ræða um vísindi og kynna sér hvað aðrir á spítalanum eru að fást við. Það hefur tekist  vel fram að þessu en líklegast verður meiri gleði en oft áður við afhendingu styrkja í ár.  Ástæðan er sú að framkvæmdastjórn spítalans ákvað að hækka framlagið í Vísindasjóð úr 85 milljónum í 100 milljónir. Auk þessa ákvað stjórnin að veita aukalega 12 milljónir á ári næstu þrjú árin í sérverkefni til eflingu vísinda innan Landspítala. Er það þarft verk og tímabært, og vonandi eru það bara fyrstu skrefin í að auka fjármagn til eflingar vísinda innan Landspítala. 

Fyrir hönd Vísindaráðs Landspítala óska ég öllum skemmtilegrar dagsstundar á Vísindi á vordögum 2019!

Rósa Björk Barkardóttir
formaður vísindaráðs Landspítala

 

 

 

Framkvæmdastjórn Landspítala hefur samþykkt nýja vísindastefnu spítalans sem gildir til ársins 2024.

Vísindastefnan miðar að því að spítalinn snúi vörn í sókn. Lögð verði sérstök áhersla á að skapa starfsfólki og þeim sem nema við Landspítala umgjörð og tíma til að stunda vísindarannsóknir og búa til hvata til að ná árangri í vísindum. Einnig er lögð áhersla á nauðsynlega nýliðun með því að styrkja uppbyggingu nýrra rannsóknarhópa og að búa til frjóan jarðveg fyrir nýdoktora og aðra þá sem hafa lokið löngu og krefjandi sérfræðinámi. 

VIsindastefna Landspítala 2019-2024

 
 
 
 

Undir Fagfólk á ytri vef Landspítala er heildarsíða um vísindastarfsemi á Landspítala.

Vísindaráð Landspítala er til ráðgjafar um vísindastarf á sjúkrahúsinu.  Það á við um vísindastefnu sjúkrahússins gagnvart háskólastofnunum og einkafyrirtækjum hér á landi eða í öðrum löndum. Ráðið er skipað tíu mönnum til fjögurra ára, samkvæmt tilnefningum.

Vísindaráð Landspítala sér um kynningu á vísindastarfi sem fram fer á spítalanum, þar á meðal  á Vísindum á vordögum, árlegum vísindadögum þar sem markverðar vísindaniðurstöður eru kynntar fyrir starfsfólki spítalans, fræðimönnum og almenningi.

Vísindaráð er til ráðgjafar við veitingu viðurkenninga fyrir vísindastörf á Landspítala og á aðild að úthlutun styrkja úr Vísindasjóði Landspítala. 

Formaður vísindaráðs er Rósa Björk Barkardóttir.

 

Nánar um vísindaráð Landspítala

Allar eldri fréttir
 

Styrkir til ungra vísindamanna afhentir
  • 04. desember 2018

Styrkir til ungra vísindamanna afhentir

Þann 4. desember 2018 fengu 8 ungir vísindamenn á Landspítala styrk úr vísindasjóði spítalans. Þetta var í áttunda skiptið sem þeir styrkir eru veittir. 76 styrkir hafa verið afhentir frá 2011 þegar styrkveitingar af þessu tagi hófust. Það er háskólasjúkrahúsi nauðsynlegt að efla unga vísindamenn til dáða og það skilar sér í öflugri vísindamenningu, framþróun og umbótum í starfsemi spítalans. Hérna er rætt við Rósu Björk Barkardóttur formann vísindaráðs Landspítala. Einnig er Arnar Jan Jónsson læknir tekinn tali, en hann var einn af átta styrkþegum. Arnar Jan Jónsson læknir: Langvinnur nýrnasjúkdómur á Íslandi Erna Hinriksdóttir læknir Nýgengi og algengi geðklofa og annarra geðrofssjúkdóma á Íslandi Guðrún Björg Steingrímsdóttir sérnámslæknir Sár vetrarins. Faraldsfræði alvarlegra áverka og áverkadauða á Íslandi Guðrún Lísbet Níelsdóttir hjúkrunarfræðingur Þolmörk Landspítala í hópslysum – bráðaviðbrögð og áhrif á flæði sjúklinga eftir tvö rútuslys Halla Ósk Ólafsdóttir sálfræðingur Sérhæfð meðferð og snemmtækt inngrip við geðhvörfum á Íslandi Helgi Kristinn Björnsson læknir Lifrarskaði af völdum krabbameinslyfja I. Margrét Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur Sálfélagsleg stuðningsmeðferð fyrir fjölskyldur unglinga með ADHD: sjónarmið foreldra og unglinga Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen læknir Afleiðing höfuðhöggs hjá íþróttakonum, möguleg vanstarfsemi á heiladingli,taugasálfræðileg skerðing og lífsgæði NÁNARI UPPLÝSINGAR Í FRÉTT Á VEF LANDSPÍTALA: https://www.landspitali.is/um-landspitala/fjolmidlatorg/frettir/stok-frett/2018/12/04/Atta-ungir-visindamenn-styrktir-ur-Visindasjodi-Landspitala-til-kliniskra-rannsokna/
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?