Þjónustukannanir sjúklinga á Landspítala
Á Landspítala er lögð áhersla á að veita bestu mögulegu þjónustu og hlusta á raddir sjúklinga. Til að ná því markmiði verða á árinu 2025 framkvæmdar tvær tegundir þjónustukannana:
- Árleg þjónustukönnun: Ítarleg könnun sem metur upplifun sjúklinga sem hafa dvalið á legudeildum.
- Stutt þjónustukönnun eftir komu: Stutt könnun send til allra sjúklinga eftir hverja komu á spítalann.
Tilgangur beggja kannana er að safna upplýsingum um viðhorf sjúklinga og nýta til að bæta þjónustu, stuðla að umbótum og tryggja áframhaldandi gæði í heilbrigðisþjónustu.
Árleg þjónustukönnun
Nýjasta könnunin var gerð vorið 2024 og eru niðurstöður hennar birtar hér.
Landspítali stendur árlega fyrir þjónustukönnun meðal sjúklinga og í úrtaki vorið 2024 var hluti þeirra sjúklinga sem útskrifaðist af spítalanum í febrúar, mars og apríl það ár.
Þeir fengu sent bréf með boði um þátttöku og lykilorð að könnuninni sem var rafræn.
Þjónustukönnun sjúklinga 2024 - niðurstöður
Tilgangur og skilyrði
Tilgangur könnunarinnar var að fá upplýsingar um viðhorf sjúklinga til þjónustu spítalans og að nota niðurstöðurnar til umbóta í þjónustu við sjúklinga.
Þátttakendur voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki.
Skilyrði fyrir þátttöku:
- Sjúklingar sem útskrifuðust í febrúar – apríl ár hvert
- a) 18 ára eða eldri
b) börn - Útskrifaðir af legudeildum aðgerðasviðs og meðferðarsviðs
- Legulengd var yfir eina nótt eða lengur
Þjónustukönnun sjúklinga hefur verið gerð árlega frá 2012 og eru niðurstöður áranna 2018-2024 birtar hér með í nýjustu niðurstöðunum.
Ábyrgðarmenn þjónustukönnunar sjúklinga eru Tómas Þór Ágústsson framkvæmdastjóri lækninga og Ólafur G. Skúlason framkvæmdastjóri hjúkrunar.
Rafræn könnun
Könnunin í ár var rafræn, þ.e. þátttakendur fengu sent bréf í pósti með slóð á könnunina og ákveðnu kenni sem þurfti að slá inn til að fá aðgang að könnuninni. Einungis var hægt að svara einu sinni. Ef þátttakendur óskuðu eftir, gátu þeir hringt á hagdeild og fengið prentaðan spurningalista sendan með pósti sem var þá hægt að svara og senda tilbaka á hagdeild.
Þátttökubréfin fóru í póst um miðjan maí, sendar voru svo út tvær ítrekanir til þeirra sem voru ekki búnir að svara (og höfðu ekki afþakkað þátttöku eða lagst aftur inn). Fyrri ítrekunin var send í pósti tveim vikum eftir að þátttökubréfin fóru fyrst í póst og seinni ítrekunin fjórum vikum eftir að þátttökubréfin voru send.
Í skýrslunni eru niðurstöður Landspítala bornar saman við niðurstöður úr sambærilegri könnun sem framkvæmd er af CareQuality Commission (CQC) í Englandi.
Einnig var gerð könnun á barnadeild. Sambærileg könnun hefur verið gerð árlega síðan 2015. Notast var við spurningalista sem er nokkuð frábrugðinn spurningalistanum sem lagður var fyrir á almennum deildum og var sendur forráðamönnum barnanna til að svara.
Sjá talnaefni vegna könnunarinnar
Að þessu sinni var þátttökuboðið í barnakönnunina sent forráðamönnum í SMS og gaf það góða raun og skilaði töluvert fleiri svörum en fyrri ár. En þess má geta að úrtakið var líka tvöfaldað
Bakgrunnur
Við undirbúning könnunarinnar leitaði Landspítali ráðgjafar frá Picker Institute Europe sem sér um þjónustukannanir fyrir NHS í Englandi. Fyrir utan spurningu nr. 4 eru allar spurningar könnunarinnar í eigu Picker Institute Europe (PIE) og Care Quality Commission (CQC) í Englandi og eru varðar höfundarrétti. Öll notkun þeirra er því óheimil án vitundar og samþykkis PIE og CQC. Landspítali hefur leyfi Picker Institute fyrir notkun þeirra. Spurning nr. 4 er úr Norpeq spurningalista sem þróaður var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.
Skipan efnis í þessari samantekt tekur mið af skýrslu The Care Quality Commission um niðurstöður þjónustukönnunar NHS 2011 .
Stutt þjónustukönnun eftir komu
Landspítali hefur hafið innleiðingu á þjónustukönnunum fyrir sjúklinga. Áætlað er að innleiðingu ljúki 1 . júní 2025. Við lok þess tímabils munu öll sem nýta sér þjónustu Landspítala geta svarað stuttum spurningalista um upplifunina.
Landspítali mun nýta sömu lausn og íslenska ríkið en nánar má lesa um útfærsluna hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/rekstur-og-eignir-rikisins/konnun-a-thjonustu-rikisstofnana/
Hér eru nokkur dæmi um algengar spurningar:
- Hver getur tekið þátt í þjónustukönnuninni?
Allir sjúklingar og aðstandendur sem hafa nýtt sér þjónustu á bráðamóttöku. - Er þátttaka nafnlaus?
Já, öll svör eru nafnlaus og trúnaðargæslu er fylgt í hvívetna. - Verð ég að svara?
Nei, þú ræður hvort þú svarar - Hvað verður gert við niðurstöðurnar?
Niðurstöðurnar verða nýttar til að bæta þjónustuna á Landspítala og auka gæði hennar. - Hvernig fæ ég aðgang að þjónustukönnuninni?
Þú getur nálgast könnunina í Landspítalaappinu eða með því að skanna QR kóða á þeirri deild sem þú fékkst þjónustu. - Er hægt að svara oft?
Það er hægt en það er best að hvert og eitt svari eingöngu einu sinni fyrir hverja komu á spítalann. - Hver fá senda könnun í appið?
Öll sem nýta sér þjónustu Landspítala fá könnun í gegnum Landspítalaappið, foreldrar barna upp að 16 ára aldrei fá tilkynningu um könnun í appinu. Við 16 ára aldur verður barnið sjálfstæður þjónustuþegi heilbrigðiskerfisins og hafa foreldrar þá ekki lengur aðgang að þeirra upplýsingum í gegnum Landspítalaappið. - Get ég séð niðurstöður?
Niðurstöður allra ríkisstofnanna eru aðgengilegar hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/rekstur-og-eignir-rikisins/konnun-a-thjonustu-rikisstofnana/ - Get ég sent ábendingar eða athugasemdir með öðrum leiðum?
Já, hér eru upplýsingar um samskiptaleiðir til Landspítala: https://landspitali.is/default.aspx?pageid=6ed31c15-b7f3-11e7-80fe-005056be0005 - Fæ ég svar við þeim ábendingum sem ég sendi inn í gegnum þjónustukönnun?
Nei, þjónustukönnunin er algjörlega nafnlaus en ef þú vilt fá svar þá bendum við þér á að senda inn ábendingu í gegnum vef Landspítala eða hafa samband við talskonu sjúklinga talskona@landspitali.is