Líknardeild
Líknarmeðferð miðar að því að bæta lífsgæði sjúklinga með lífshættulega sjúkdóma, sem og fjölskyldna þeirra, með því að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu.
Ólöf Ásdís Ólafsdóttir
olofao@landspitali.isArna Dögg Einarsdóttir
arnae@landspitali.isSjúklinga og aðstandendur
Hafðu samband
Hér erum við
Kópavogsgerði 6c-d, Kópavogi
Starfsemi
Starfið á líknardeildinni í Kópavogi grundvallast á skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá 2002 um líknarmeðferð:
Líknarmeðferð er meðferð sem miðar að því að bæta lífsgæði sjúklinga með lífshættulega sjúkdóma, sem og fjölskyldna þeirra, og felst meðferðin í því að fyrirbyggja og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu.
Líknarmeðferð á við snemma á veikindatímabilinu, samhliða annarri meðferð (krabbameinslyfjum og geislum) sem notuð er til að lina einkenni en jafnframt til að lengja líf.
Líknardeildin er hugsuð fyrir tímabundna innlögn sjúklinga með ólæknandi, langt genginn sjúkdóm og skertar lífslíkur. Markmiðið er að bæta lífsgæði sjúklinga og fjölskyldna þeirra. Áhersla er lögð á góð samskipti og samvinnu við sjúkling og fjölskyldu hans.
Helstu ástæður innlagna á líknardeild:
- Meðferð einkenna
- Meðferð við lok lífs
Deildin skiptist í legudeild og göngudeild. Náin samvinna er við líknarráðgjafateymi Landspítala og HERU, sérhæfða líknarheimaþjónustu Landspítala, sem sinnir sjúklingum er dvelja heima.
Við ákvörðun um innlögn á líknardeildina er þeim sjúklingum forgangsraðað sem eru í brýnustu þörf hverju sinni. Reynt er að skipuleggja innlögn fyrri hluta dags ef hægt er. Viðtal er við lækni og hjúkrunarfræðing fljótlega eftir komu á deild. Farið er yfir aðstöðu deildarinnar með sjúklingi eða aðstandendum. Dvalartími fer eftir ástæðum innlagnar, líðan og aðstæðum hvers sjúklings.
Hvað þarf að hafa með sér?
- Þægilegan fatnað, þar sem áhersla er lögð á að sjúklingar klæðist eigin fötum yfir daginn.
- Snyrtivörur, tannkrem, tannbursta og góða inniskó.
- Lyf sem viðkomandi á heima og lyfjakort.
- Hjálpartæki sem notuð eru daglega s.s. göngugrind, hjólastól, sessur eða annað.
- Afþreyingu s.s. bækur, hljóðbækur og tónlist. Gott getur verið að koma með litlar myndir sem eru viðkomandi kærar.
- Vinsamlegast athugið að sjúkrahúsið getur ekki borið ábyrgð á peningum eða öðrum verðmætum, s.s. símum og tölvum, sem sjúklingar eða aðstandendur hafa meðferðis.
Símar
Legudeild 543 6602 og 543 6607.Hjúkrun
Hjúkrun á líknardeildinni byggir á fjölskylduhjúkrun. Horft er til þess að þegar einn í fjölskyldunni er mikið veikur hefur það áhrif á alla innan hennar og því þarf að huga að þörfum og stuðningi við fjölskylduna í heild sinni.
Lögð er áhersla á umönnun og meðferð sem hjálpar sjúklingi að viðhalda líkamlegri, andlegri og félagslegri færni eins og kostur er og einblínt á að aðstoða hann og fjölskylduna við aðlögun að breyttum aðstæðum.
Veitt er fræðsla og stuðningur til sjúklinga og fjölskyldna þeirra. Mikil áhersla er lögð á mat og meðferð ýmissa einkenna s.s. verkja, ógleði og kvíða sem og umönnun og stuðning við sjúklinga og fjölskyldur þeirra vegna yfirvofandi andláts.
Á líknardeildinni vinna hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar saman með hvern sjúkling. Vaktaskipti þeirra eru kl. 8:00, 15:30 og 23:00.
Sjúklingur er aðstoðaður við alla grunnþætti daglegs lífs eftir þörf hverju sinni. Einkenni sjúklings eru metin reglulega og fylgst er náið með ástandi hans. Ef breyting verður á ástandi sjúklings er fjölskyldu og öðru starfsfólki sem að umönnun og meðferð hans kemur haldið upplýstum.
Læknar
Læknar líknardeildar hafa allir sérþekkingu í líknarlækningum og sinna inniliggjandi sjúklingum á deildinni sem og sjúklingum á göngudeild í Kópavogi. Einnig sinna þeir sjúklingum á göngudeild blóð- og krabbameinslækninga 11C á Landspítala Hringbraut. Líknarlæknar vinna í líknarráðgjafateymi spítalans og sinna ráðgjöf á öllum deildum hans. Þeir eru ráðgefandi í verkjateymi og MND-teymi spítalans. Líknarlæknar sinna jafnframt læknisþjónustu við sjúklinga í þjónustu hjá HERU, sérhæfðri líknarheimaþjónustu Landspítala. Læknar deildarinnar hafa auk sérþekkingar í líknarlækningum ýmsa sérfræðiþekkingu m.a. í krabbameinslækningum, taugalækningum og almennum lyflækningum.
Sálgæsla
Sjúkrahúsprestur sinnir sálgæslu fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Sálgæslan felur í sér andlega og trúarlega þjónustu og er markmið hennar að styðja við þá sem glíma við sárar tilfinningar og tilvistarspurningar.
Sálgæsla stendur öllum til boða, óháð lífsskoðunum eða trúarafstöðu.
Sjúkraþjálfun
Hlutverk sjúkraþjálfara á líknardeildinni er fjölþætt og miðar að því að hámarka færni einstaklinga með styrktar- og færniþjálfun ásamt því að útvega hjálpartæki þegar það á við. Fræðsla og ráðgjöf er einnig stór hluti af meðferð á líknardeild, bæði til sjúklings og aðstandenda.
Ef þörf krefur er gerð athugun á heimili sjúklinga til að auðvelda þeim að vera heima eins lengi og unnt er. Sjúkraþjálfari er í hlutastarfi á líknardeildinni.
Nánar um sjúkraþjálfun á Landspítala
Sálfræðiþjónusta og félagsráðgjöf
Félagsráðgjafar og sálfræðingar krabbameinsdeilda sinna skjólstæðingum á líknardeild. Ef metin er þörf á félagsráðgjafa eða sálfræðingi getur starfsfólk aðstoðað við að panta tíma fyrir sjúkling eða aðstandendur.
Meðferð hjá sálfræðingi felur m.a. í sér stuðningsviðtöl og sálfræðilega meðferð.
Félagsráðgjafar veita upplýsingar um réttindi og styðja sjúkling og fjölskyldu eftir þörfum. Margir hafa hitt félagsráðgjafa áður en þeir leggjast inn á deildina og því er reynt að fá tíma hjá sama aðila ef þörf er á félagsráðgjöf.
Á líknardeildinni er veitt læknis- og hjúkrunarþjónusta, sjúkraþjálfun og sálgæsla sem og annar stuðningur, eftir þörfum. Þessar starfsstéttir starfa náið saman að því að veita einstaklingsmiðaða þjónustu til sjúklinga og fjölskyldna þeirra.
Umhverfið á legudeildinni er heimilislegt og leitast er við að mæta þörfum sjúklinga og fjölskyldna þeirra eins og framast er unnt.
Á deildinni eru 12 einbýli í tveimur húsum og er innangengt á milli húsa.
Staðsetning: Kópavogsgerði 6c-d í Kópavogi.
Símar: 543 6602 og 543 6607.
Tímapöntun: Starfsfólk spítalans getur pantað tíma hjá ritara HERU í síma 543 6360.
Greiða þarf göngudeildargjald.
HERA er sérhæfð líknarheimaþjónusta Landspítala ætluð sjúklingum með erfið einkenni vegna langvinnra og ólæknandi sjúkdóma.
Vefsíða HERU sérhæfðrar líknarheimaþjónustu
Líknarráðgjafateymið er sérhæfð líknarþjónusta sem sinnir ráðgjöf innan og utan Landspítala. Meginhlutverk þess er að vera heilbrigðisstarfsfólki til ráðgjafar við mat og meðferð einkenna sem koma fram í veikindum, vegna erfiðleika í samskiptum og vegna útskrifta þegar þörf er á sérhæfðri heimaþjónustu eða innlögn á líknardeild. Teymið veitir einnig sjúklingum og aðstandendum beina ráðgjöf og stuðning á göngudeild og með símaeftirfylgd. Það sinnir jafnframt kennslu, rannsóknum og þróun á sviði líknarmeðferðar.
Líknarmeðferð er veitt í þeim tilgangi að bæta líðan og lífsgæði sjúklinga sem eru með langvinna og lífsógnandi sjúkdóma, t.d. krabbamein, hjarta-, lungna-, tauga- og nýrnasjúkdóma. Markmiðið er að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni og vanlíðan vegna sjúkdóms og sjúkdómsmeðferðar eins snemma og auðið er. Það á einnig við um andlegar, sálrænar og félagslegar afleiðingar veikindanna. Líknarmeðferð er hægt að veita frá greiningu sjúkdóms og samhliða annarri meðferð.
Í líknarmeðferð er lögð áhersla á:
- samræður um stöðu sjúkdóms, hvert eigi að stefna í meðferð og hverjar séu óskir sjúklings
- að meta líðan og þarfir sjúklings og fjölskyldu hans
- að fyrirbyggja og meðhöndla einkenni
- að styðja sjúkling og fjölskyldu hans til að takast á við breyttar aðstæður
- samstarf heilbrigðisstarfsfólks
Beiðnir
- Allar fagstéttir geta leitað til líknarráðgjafateymis.
- Beiðnir skal senda á líknarráðgjafateymi sem ,,beiðni um ráðgjöf” í Sögu. Starfmenn teymisins meta beiðnina innan sólarhrings.
Tölvupóstfang líknarráðgjafateymis
- liknarteymi@landspitali.is
Starfsmenn líknarráðgjafateymis
- Arna Dögg Einarsdóttir, yfirlæknir líknardeildar og HERU
- Katrín Edda Snjólaugsdóttir hjúkrunarfræðingur, MSc, s. 620 1518, katrinsn@landspitali.is
- Kristín Jóhanna Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur, s. 825 0951, kthorb@landspitali.is
- Kristín Lára Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur, MSc, s. 825 5114, kristinl@landspitali.is
Aðrir í líknarráðgjafateymi
- Valgerður Sigurðardóttir yfirlæknir, krabbameins- og líknarlæknir
- Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sjúkrahúsprestur
- Jóhanna Hildur Jónsdóttir, sérfræðingur í almennum lyflækningum
Heim: Ef ástand sjúklings breytist til batnaðar og einkenni verða stöðug og viðráðanleg er metið hvort hægt sé að auðvelda sjúklingi og aðstandendum að hann sé heima með aukinni þjónustu eða hjálpartækjum.
Ef fullreynt þykir að sú heimaþjónusta sem í boði er, s.s. HERA sérhæfð líknarheimaþjónusta Landspítala, sé ekki nægjanleg þarf að taka ákvörðun um varanlega vistun þ.e. flutning á hjúkrunarheimili.
Hjúkrunarheimili: Mat á þörf umsækjanda fyrir dvöl á hjúkrunarheimili er gerð af færni- og heilsumatsnefnd í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig.
Ef sjúklingur sem dvelur á líknardeildinni hefur ekki virkt færni- og heilsumat er slík umsókn send í samráði við sjúkling og aðstandendur og sótt um vistun á hjúkrunarheimili.
Eftir að slík umsókn er samþykkt getur verið bið eftir hjúkrunarheimili. Við slíkar aðstæður getur sjúklingur þurft að flytjast tímabundið frá líknardeild yfir á hjúkrunardeild Landspítala Vífilsstöðum enda meðferð á líknardeild þá lokið.
Frekari upplýsingar um færni- og heilsumat.
Hagnýtar upplýsingar
Líknardeildin í Kópavogi hóf starfsemi sína í apríl 1999 og er fyrsta sérhæfða líknardeildin á Íslandi. Henni var komið á fót með sameiginlegu átaki Landspítala og Oddfellowreglunnar á Íslandi sem ákvað í tilefni af 100 ára afmæli reglunnar að veita fé til uppbyggingar líknardeildar í Kópavogi. Í byrjun voru átta legurými.
Á árunum 2003, 2007 og 2012 var aukið við húsnæði deildarinnar og allar breytingar gerðar með stuðningi Oddfellowreglunnar á Íslandi.
Starfsemi deildarinnar er í þremur húsum:
- Í húsi 6d er átta rúma legudeild.
- Í húsi 6c er fjögurra rúma legudeild.
- Í húsi 6b er göngudeild.
Allar sjúkrastofur líknardeildar eru einbýli. Salerni eru ýmist inni á herbergjum, á milli herbergja eða á gangi. Sér salerni er fyrir gesti.
Matur er borinn fram í borðstofu eða færður sjúklingi inn á stofu. Aðstandendur geta keypt mat í gegnum eldhús spítalans. Panta þarf hádegismat fyrir kl. 10:00 og kvöldmat fyrir kl. 14:00. Starfsfólk í eldhúsi og ritari sjá um pantanir og taka á móti greiðslum.
Gott getur verið að taka á móti gestum í setustofu deildarinnar. Eldhús er fyrir aðstandendur með ísskáp, örbylgjuofni og aðstöðu til að matast.
Fjölskylduherbergi er til afnota fyrir aðstandendur, sem afdrep og til hvíldar fyrir fjölskyldur sem dvelja langdvölum á deildinni.
Kapellan er alltaf opin fyrir sjúklinga og aðstandendur. Prestur deildarinnar er með kyrrðarstund á þriðjudögum kl. 11:30-12:00 og morgunbænir á fimmtudögum kl. 10:30.
Hægt er að fá tölvuaðgang í gegnum gestanet Landspítala og sér ritari um það.
Líknardeildin væri ekki það sem hún er nema fyrir styrki og stuðning fjölmargra.
Oddfellowreglan á Íslandi hefur verið stærsti styrktaraðili líknardeildarinnar. Reglan gaf Landspítala bæði vinnu við framkvæmdir og innanstokksmuni fyrir líknardeildina árið 1999 sem og við aðrar viðbætur og breytingar á húsnæðinu árin 2003, 2007 og 2012. Einnig styrkti reglan kapellu deildarinnar sem vígð var árið 2003. Margar stúkur Oddfellowreglunnar hafa styrkt deildina með ýmsum gjöfum.
Fjölmargir einstaklingar og fjölskyldur sem og félagasamtök hafa veitt styrki til deildarinnar.Í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka hefur verið áheitasöfnun fyrir minningarsjóð deildarinnar og margir hlauparar hlaupið fyrir deildina.
Hollvinasamtök líknarþjónustu hafa það hlutverk að styðja við starfsemi líknardeildar Landspítala Kópavogi og annarrar líknarþjónustu á Íslandi.
Sjúklingar eru hvattir til að taka virkan þátt í umönnun sinni og meðferð, eins og aðstæður leyfa.
Oft þurfa aðstandendur að vera talsmenn sinna nánustu og því er nauðsynlegt að þeir ræði við starfsfólk um þær óskir og venjur sem mikilvægar eru fyrir sjúklinginn.
Meðferð sjúklings er á ábyrgð starfsfólks deildarinnar en mikilvægt er að aðstandendur tjái áhyggjur sem þeir kunna að hafa og nefni líka ef þeim finnst einhver breyting verða á líðan sjúklingsins. Breytingar á meðferð eru ávallt ræddar við sjúkling og aðstandendur.
Fjölskyldur eru mismunandi og misstórar. Mikilvægt er að allir fái sinn tíma með sjúklingnum. Gott getur verið að setja upp dagskrá með heimsóknum fyrir fjölskylduna; í stað þess að of margir komi í einu eigi hver og einn sinn tíma eða dag.
Mælt er með því að fjölskyldan velji einn tengilið úr fjölskyldunni sem er ábyrgur fyrir samskiptum við deildina og verður þá öðrum bent á að hafa samband við tengiliðinn varðandi upplýsingar.
Sjúklingar sem eru mikið veikir hafa oft lítið þrek og úthald og mælt er með að heimsóknum annarra en þeirra nánustu sé stillt í hóf og vari stutt.
Alltaf má ræða við hjúkrunarfræðing sjúklings um líðan hans en bæði sjúklingur og fjölskylda geta óskað eftir fjölskyldufundi með lækni.
Mikilvægt er fyrir alla aðstandendur að huga að eigin líðan þegar ástvinur er veikur. Aðstandendur sem dvelja mikið á deildinni ættu að nýta sér þær góðu gönguleiðir sem eru í nágrenni líknardeildar. Stutt er í sundlaug og ýmis kaffihús og matsölustaði.
Upplýsingar um matsölustaði, kaffihús og matvöruverslanir í nálægð við líknardeildina er hægt að nálgast hér:
Ræða þarf við börn og unglinga um erfiða reynslu og flóknar aðstæður og sýna heiðarleika í allri umræðu. Starfsfólk líknardeildar veitir foreldrum eða forráðamönnum barna og unglinga sem eiga náinn ástvin á deildinni ráðgjöf og stuðning eftir þörfum. Enn fremur er á vegum deildarinnar boðið upp á stuðningsúrræði sem ber heitið fjölskyldustoð og er ætlað fjölskyldum þar sem foreldri er alvarlega veikt. Þessi stuðningur felur í sér samtal við foreldra/forráðamenn, börn og unglinga og fjölskyldumeðlimir eru studdir í því að ræða við unga fólkið í fjölskyldunni um erfið málefni. Að fjölskyldustoðinni standa prestur og hjúkrunarfræðingar.
Bækur/bæklingar fyrir börn og unglinga á íslensku eru m.a:
- Bæklingur: Mamma, pabbi hvað er að? Gefinn út af Krabbameinsfélaginu.
- Bókin Krabbameinið hennar mömmu eftir Valgerði Hjartardóttur. Hægt að nálgast í Kirkjuhúsinu, Pennanum Eymundsson og hjá HERU, sérhæfðri líknarheimaþjónustu Landspítala.
- Eftir andlát:
- Hvað í veröldinni gerir maður þegar einhver deyr? Bók sem hentar börnum og unglingum 6-14 ára. Gefin út af Skálholtsútgáfunni og hægt að nálgast hjá Kirkjuhúsinu.
- Börn og sorg eftir Sigurð Pálsson. Gefin út af Skálholtsútgáfunni 1998.
Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Ljósið hefur boðið upp á námskeið fyrir börn og unglinga sem eiga náinn ástvin með krabbamein.
Heimsóknartími á líknardeildinni er nokkuð rýmri en almennt innan spítalans, eða kl. 15:00-20:00 alla daga. Húsin eru ávallt læst en dyrabjalla er við útidyr. Hægt er að hringja í síma 543 6602 eða 543 6607.
Sýnum tillitssemi
- Taka þarf tillit til þess að flestir sjúklinganna vakna seinna en á öðrum deildum spítalans og þurfa aðstoð við sjálfsumönnun eða aðhlynningu á morgnana.
- Sjúklingar sem eru alvarlega veikir óska oft eingöngu eftir heimsóknum frá sinni nánustu fjölskyldu. Þetta kemur heimsóknargestum stundum á óvart en ætti ekki að taka persónulega. Óskir sjúklings þarf að virða.
- Þegar um mikið veika sjúklinga er að ræða verða samræður oft erfiðari sem þýðir þó ekki að gestir ættu að hætta að koma.
- Nærvera er flestum mikilvæg og sjúklingur getur notið nærveru gesta og fundist gott að heyra í þeim þó svo að hann eigi erfitt með að taka þátt í samræðum.
- Mælst er til þess að fjöldi heimsóknargesta sé innan skynsamlegra marka hjá hverjum og einum og mikilvægt er að gefa nánustu aðstandendum rými með sjúklingnum.
- Ef heimsóknargestir eru í vafa um hvort þeir eigi að heimsækja sjúkling ættu þeir að vera í sambandi við fjölskyldu hans eða starfsfólk líknardeildar í síma 543 6602 eða 543 6607.
Matmálstímar sjúklinga eru kl. 12:00-13:00 og 18:00-19:00.
Margir sjúklingar vilja hvíla sig eftir matinn. Morgunmatur er sveigjanlegur, borinn fram frá kl. 08:00 til 10:30.
Andlát sjúklings á líknardeildinni á sér oftast nokkurn aðdraganda, sjá hér upplýsingar þegar ástvinur er deyjandi en samt eru fæstir undir það búnir þegar að því kemur.
Starfsfólk deildarinnar leggur sig fram um að auðsýna bæði látnum og ættingjum virðingu. Eftir andlát er búið um hinn látna og aðstandendum er gefinn kostur á því að eiga kveðjustund við dánarbeð.
Landspítali hefur gefið út bækling sem er afhentur við andlát á spítalanum og veitir hagnýtar upplýsingar til aðstandenda. Einnig eru upplýsingar af þessu tagi á vef Tryggingastofnunar.
Stuðningur
Sjúkrahúsprestar og djákni á Landspítala liðsinna aðstandendum eftir því sem óskað er, leiða kveðjustund og veita nauðsynlegar upplýsingar um framvindu mála eða kalla til viðkomandi sóknarprest eða forstöðumann trúfélags, sé þess óskað.
Rafrænt dánarvottorð
Læknir útbýr dánarvottorð sem þarf að liggja fyrir áður en kemur til útfarar; dánarvottorðið er rafrænt.
Sjá nánar: https://island.is/andlatstilkynning
Útför
Útfararstofur bjóða þjónustu sína varðandi útför hins látna.
- Hér er hægt að nálgast lista yfir leyfi til að reka útfararþjónustu
Fylgd
Fylgd við syrgjendur á vegum líknardeildarinnar er í boði fyrir aðstandendur sem missa ástvin á deildinni og er veitt í u.þ.b. eitt ár frá andláti. Tilgangur hennar er að veita syrgjendum stuðning til að takast á við missi. Stuðningurinn felur m.a. í sér boð á samverustund að vori, minningarsamveru á haustmánuðum og samveru á aðventu í kirkju . Að fylgdinni standa prestur, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliði.
Ef einhverjar spurningar vakna og þörf er á að ræða upplifun, líðan eða annað sem hvílir á aðstandendum er velkomið að hringja á líknardeildina í síma 543 6602 og skilja eftir skilaboð til starfsfólks fylgdarinnar. Haft verður samband eins fljótt og hægt er.
Fræðsla og stuðningur
Mikilvægt er að leita sér upplýsinga um hinar ýmsu birtingarmyndir sorgar. Í því skyni hefur starfsfólk deildarinnar þýtt og staðfært fræðsluefni sem lýsir mögulegri líðan og upplifun fólks sem er að takast á við sorg og ástvinamissi. Sorgin í hinum ýmsu myndum.
Til eru frjáls félagasamtök og hópar sem styðja syrgjendur við að takast á við sorgina:
Ný dögun Starfsemi Nýrrar dögunar felst í stuðningi við þá sem eiga um sárt að binda vegna ástvinamissis ásamt almennri fræðslu og fyrirlestrum um sorg og sorgarviðbrögð.
Ljónshjarta Stuðningssamtök fyrir ungt fólk sem hefur misst maka og börn þeirra sem hafa misst foreldri.
www.missir.is Á vefnum eru ýmsar upplýsingar og fræðsluefni fyrir einstaklinga sem vilja leita sér aðstoðar á erfiðum stundum.
Þjóðkirkjan veitir margvíslega þjónustu og fjölbreytt starf fer fram á vettvangi hennar. Eftirfylgd er hluti af þeirri þjónustu sem prestar og djáknar bera ábyrgð á og hafa umsjón með. Fjölskylduþjónusta kirkjunnar er jafnframt liður í eftirfylgdar- og sálgæslustarfi kirkjunnar. Upplýsingar um starf og þjónustu þjóðkirkjunnar um land allt má finna á vefnum eða á Biskupsstofu í síma 528 4000.
Almenn réttindi við andlát, stéttarfélög, sjóðir, útfararstyrkir
- Á vef Tryggingastofnunar eru upplýsingar um almenn réttindi við andlát
- Upplýsingarit Landspítala Eftir andlát ástvinar
- Sem dæmi má nefna dánarbætur VR og dánarbætur Eflingar stéttarfélags.